149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð viðbrögð við ábendingu minni. Eins og ég kom inn á er skilgreiningin kannski frekar óljós. Við tölum um skammdegisþunglyndi sem getur varað yfir lengri tíma, marga mánuði, þegar talað er um skammdegið. „Í skammdeginu vildi henda' að villtust bestu menn,“ orti nú Megas, með leyfi forseta. Ef við erum að setja eitthvað í lagatexta er oft gott að vera bara nokkuð skýr með hvað átt er við og ég þakka hv. þingmanni fyrir góð viðbrögð við því.

Ég heyrði ekki að hv. þingmaður svaraði þeirri hugmynd minni að við gerðum að sið annarra þjóða, svo sem Breta, að flagga á bústað æðstu embættismanna þjóðarinnar þegar þeir væru heima eins og Bretar gera t.d. með Englandsdrottningu. Það er flaggað þegar hún er á staðnum. Hér á að vera fáni uppi allan ársins hring, óháð því hvort starfsemi er eða viðkomandi er í húsinu.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom líka inn á í framsögu sinni að við notuðum fánann minna en ýmsar aðrar þjóðir. Ég hygg, án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega, að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér í því. Ég velti því fyrir mér hvort hluti af því geti verið ströng fánalög. Við erum með ekki bara mjög strangar reglur um hvenær megi flagga heldur einnig hvernig megi nota fánann, t.d. í auglýsingaskyni á framleiðsluvörum o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi spáð í það að kannski sé það einn hluti ástæðunnar. Ef við viljum meiri notkun fánans — sem eru vissulega skiptar skoðanir um og persónulega er ég ekki sérstaklega mikill þjóðernistáknamaður en ég hef áhuga á að ræða þessi (Forseti hringir.) mál — þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að við þurfum kannski að slaka á hvað varðar almenna notkun fánans í ýmsum öðrum tilgangi (Forseti hringir.) en að draga hann eingöngu að húni.