149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hingað upp til að lýsa yfir stolti mínu yfir því að vera á þessu máli og fagna því að það veki meiri athygli en ég átti von á en oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Mér finnst þetta gott mál, ekki bara vegna þess að við eigum að hafa þjóðfána okkar sýnilegan heldur er þetta líka partur af því í mínum huga að við eflum þjóðarstoltið og sjálfsvirðingu okkar gagnvart íslenska fánanum og því að við erum fullvalda þjóð. Það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn síðustu árin að við getum státað af því, öll saman sem þjóð, að vera Íslendingar og séum stolt af því í þeirri stöðu sem við erum í og höfum verið frá því að við urðum fullvalda þjóð. Við höfum gengið í gegnum mjög erfiða tíma sem áttu tíu ára afmæli um daginn, sá erfiði tími sem ég er að hugsa um þegar ég segi þetta. Á þeim tíma höfum við oft talað okkur svolítið niður, mörg hver, og höfum talað um að við værum bara nokkrar hræður á einhverju skeri norður á hjara veraldar. Mér finnst það ekki vel orðað.

Ég er mjög stoltur af því að vera Íslendingur og tilheyra þessari fullvalda þjóð. Sjálfstæðisbaráttan sem við stóðum í, eða þeir sem á undan gengu á sínum tíma, var ekki sjálfsagt mál. Þetta var mikil barátta og þurfti mikið fyrir því að hafa. Mér finnst mjög gott mál að hafa íslenska fánann sem sýnilegastan á þeim stöðum sem koma fram í frumvarpinu og upplýstan í skammdeginu. Eins og kom fram í ræðu flutningsmanns hafa þjóðirnar í kringum okkur, sem við berum okkur saman við og erum stolt af að þekkja og vinna með, sín lög þannig að þau hafi sína fána sýnilega. Finnst mér að við eigum ekki að standa þeim neitt á sporði í þeim málum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, ég bara trúi því að þetta mál fái góða afgreiðslu og að við getum flaggað 1. desember nk.