149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni framúrskarandi ræðu sem fól í sér mjög gagnlega yfirferð um þetta mál sem ég tel afar þýðingarmikið og afar vel við hæfi á afmælisári fullveldisins. Það væri sannarlega óskandi að Alþingi hefði snarar hendur og næði að lögfesta þetta góða mál áður en kemur til afmælisins 1. desember nk.

Það er sannarlega ánægjulegt að fjalla hér um svo fagurt og mikilvægt þjóðartákn sem íslenski fáninn er. Hann snertir streng í brjóstum okkar allra. Maður kynnist því þegar maður ferðast erlendis eða jafnvel hefur haft tækifæri til að búa erlendis, t.d. í Bandaríkjunum eins og ég hef gert, hversu mikið er lagt upp úr þjóðfánanum. Bandaríkjamenn leggja til að mynda mjög mikið upp úr sínum fána, hann er gífurlega öflugt sameiningartákn bandarísku þjóðarinnar og það er mjög algengt að fólk hafi bandaríska fánann fyrir utan heimili sitt án þess að það sé neitt sérstakt tilefni.

Hér hefur verið rifjað upp, ekki síst af hálfu 1. flutningsmanns, hvaða siðir tíðkast gjarnan í nágrannalöndum okkar. Hann hefur dregið mjög skýrt fram að við notum fánann kannski jafnvel í verulega minna mæli en gerist og gengur meðal nágranna okkar. Ég álít að það sé afar vel til fundið að mæla fyrir um það í lögum að á þessum helstu byggingum hins þríarma þjóðfélagsvalds, framkvæmdarvaldsins, Alþingis auðvitað og dómsvaldsins, fyrir utan aðsetur og skrifstofu forseta Íslands, sé hinn íslenski fáni við hún alla daga.

Ég er þakklátur og ánægður með að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Ég álít að heilbrigður metnaður fyrir hönd þjóðarinnar sé eðlilegur, jákvæður og uppbyggilegur í eðli sínu. Látum fánann okkar íslenska blakta sem oftast við hún en um leið skulum við ákveða að á Alþingi, Stjórnarráðinu, Hæstarétti og bústað forseta og skrifstofu skuli flaggað alla daga.