149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stutta svarið við þessari spurningu frá hv. þingmanni, sem ég þakka fyrir, er nei. Flutningsmenn hafa ekki hugsað til þess að fella niður einhverja aðra frídaga á móti því að þessi dagur sé tekinn upp. Ég rakti það í minni ræðu að við tækjum hér í þessum sal oft á tíðum ákvarðanir sem breyta högum bæði atvinnulífs og launþega án þess að gera í sjálfu sér einhverjar sérstakar ráðstafanir til að þær hitti ekki misjafnlega fyrir. Ég nefni bara eitt atriði sem snýr að atvinnulífinu sem við hér í salnum höfum breytt oft á tíðum, þ.e. upphæð tryggingagjalds. Það hefur veruleg áhrif á rekstur fyrirtækja. Við tökum margs konar svona ákvarðanir.

Ég bendi hins vegar á að þetta frumvarp gæti í sjálfu sér fallið ágætlega að því landslagi sem nú virðist vera uppi í t.d. kröfugerð verkalýðsfélaganna þar sem m.a. er talað um styttri vinnutíma og meiri tíma með fjölskyldum. Ég tel að þetta frumvarp, verði það að lögum, gæti verið ágætisinnlegg inn í þá umræðu.

Ég þakka hv. þingmanninum þann einlæga áhuga sem hann sýnir málinu og þann stuðning sem mér fannst ég lesa út úr hans orðum, en svo ég endurtaki það þá höfum við flutningsmenn ekki hugleitt það og/eða lagt til eða gert tillögu um að einhver annar frídagur detti út við að þessi sé tekinn upp.