149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er að vísu þannig að þegar við erum að taka ákvarðanir, og það er rétt hjá hv. þingmanni t.d. um tryggingagjald eins og hér var nefnt, þá er það ýmist til að auka byrði eða jafnvel létta þær, ég er nú yfirleitt að reyna að létta frekar byrðar en hitt, og þá vitum við nokkurn veginn hvað við erum að gera. Ég ítreka að það að fjölga frídögum hefur kostnað í för með sér. Þann kostnað verður einhver að bera og það verða þá fyrirtækin og hugsanlega að einhverju leyti launþegar eða neytendur, þannig að það sé alveg skýrt.

Ég er nefnilega hlynntur þessu og tel það í rauninni okkur til vansa að hafa ekki 1. desember sem almennan frídag. Ég legg til að sumardagurinn fyrsti verði notaður upp í það en allt í lagi, ég skal vera til umræðu um annað. Til móts við þann kostnað sem óhjákvæmilega hlýst af þessu velti ég fyrir mér hvort flutningsmenn hafi farið í gegnum þá hugsun, sem hefur verið viðruð hér í þessum þingsal oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að það kunni að vera skynsamlegt að leiða í lög að heimilt sé að færa lögbundna frídaga að helgum, menn rjúfi ekki vinnuvikuna í sundur. Það er almennur frídagur á miðvikudegi, sumardagurinn fyrsti á fimmtudegi og svo er mætt aftur í vinnu o.s.frv. Það væri fjölskylduvænlegra og það er alveg öruggt að það er hagkvæmara fyrir atvinnulífið að frídagar séu fastir við helgar, eins og t.d. gert er í Bandaríkjunum.