149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:14]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Flutningsmenn hafa nú ekki í sambandi við þetta mál tekið þá umræðu hvort rétt sé að færa frídaga að helgum. Mér dettur í hug í fljótu bragði fyrst og fremst í hug sumardagurinn fyrsti í því samhengi. Ekki förum við að færa trúarlegar hátíðir eins og uppstigningardag eða einhverja slíka. Það gerum við ekki.

Hitt er svo annað mál að mér er vel kunnugt um það að víða erlendis, t.d. í Bretlandi, eru menn með þrjár helgar sem eru lengdar á ári hverju, ef ég man rétt, ég held að þær séu þrjár frekar en fjórar, þar sem menn bæta mánudegi við. En það er kannski efni í aðra og meiri umræðu.

Þetta skref vildum við mjög gjarnan taka, ekki síst vegna þess að þessi tímamót eru núna yfirvofandi. Ég gat þess ekki í ræðu minni áðan að þetta mál fer til hv. velferðarnefndar þar sem ég vænti þess að það fái góða og skjóta afgreiðslu og vandaða. Það kann vel að vera að sú ágæta nefnd og meiri hluti hennar vilji kannski, þegar hún er að vinna þetta mál, gera einhverjar þær breytingar sem hv. þingmaður lagði til í máli sínu. Ég held að við verðum bara að láta á það reyna.

Fyrst og fremst finnst okkur sem stöndum að þessu máli að nú sé tími til að leiða það í lög að þessi dagur sé almennur frídagur út af þeim tímamótum sem við erum að upplifa núna og til þess að loka árinu með því að íslenska þjóðin eigi til framtíðar eitthvað sem minnir hana á þá hátíð sem við erum búin að halda allt þetta ár.