149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið og athyglisverðar vangaveltur. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki velt þessu sérstaklega fyrir mér. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan að í mínum huga spilar þjóðkirkjan mikilvægt hlutverk í íslensku samfélagi og íslenskri menningu. Við byggjum mjög á kristnum gildum í ýmsu, til að mynda í grunnskólalögum okkar og öðru þess háttar. Mér finnst það mikilvægt. Mér finnst mikilvægt að við höldum í heiðri þá grundvallarmenningu sem þar liggur undir. Með því er ég þó ekki að segja að við eigum ekki að taka vel á móti annars konar trú og annars konar menningu.

Í mínum huga er alla vega hluti þessara hátíðisdaga og helgidaga þannig að ég myndi vilja að þeir væru almennir frídagar. Hvort það sé eðlilegt að það sé eitthvert svigrúm fyrir þá sem ekki halda upp á þessa frídaga til að nota sér einhverja aðra daga sem tilheyra þeirri trú, það finnst mér áhugavert. Ég velti fyrir mér hvort það ætti kannski frekar heima í kjarasamningum, að byggja upp eitthvert svoleiðis rými þar. Ég held að það væri mjög jákvætt að skoða það.

Ég ítreka samt sem áður að þó að ég hafi verið að tala fyrir því að gera breytingu á lögum sem varða helgidaga þjóðkirkjunnar þá er það í mínum huga ekki til þess að leggja þessa daga af, frekar að það væri hægt að samræma í eina löggjöf almenna frídaga, hvort sem þeir væru upprunnir frá þjóðkirkjunni, þessum menningarlegu gildum okkar kristnu trúar, eða öðru sem tengist menningu okkar eins og 1. desember, 17. júní eða eitthvað þess háttar. Áðan var ræddur sumardagurinn fyrsti. Mér finnst ástæða til að ræða hvort það sé ástæða til að halda upp á hann því hann minnir nú sjaldnast á sumarið.