149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, Það kom bersýnilega í ljós í ræðu þingmannsins að allir njóta, óháð trú, þegar um er að ræða frídaga. Það verður þá bara að vera frelsi hvers og eins að nýta sér þá daga og velta fyrir sér af hverju þeir njóta þessara daga, hvort það byggi á einhverjum trúarlegum grunni, þjóðernis- eða menningarlegum grunni, eða bara til að vera í fríi, sem má líka alveg.

Mér finnst það áhugaverð hugmynd um einhvers konar kvóta, ég held að hv. þingmaður hafi notað það orð, ef það þekkist annars staðar. Þá velti ég fyrir mér: Er það ekki bara eitt af því sem væri kjörið til umræðu núna meðal aðila vinnumarkaðarins þegar verið er að ræða um kjaramál? Ég held nefnilega að það eigi ekki ekkert síður heima þar, þessi umræðu okkar um frídagana, því þegar rætt er um styttingu vinnuvikunnar er það oft þannig að það getur hentað fólk betur að taka ákveðnar tarnir og sinna sinni vinnu í ákveðið margar klukkustundir á dag og eiga svo frí þess á milli. Örugglega eru á þessu margar hliðar og mismunandi skoðanir. Ég hef almennt verið á því að frelsið eigi að vera sem mest einstaklinganna og sem mest undir því komið að hægt sé að semja um það á vettvangi aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningum.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan um umfjöllun um þetta í nefndinni, að nú hefur nefndin tvö frumvörp sem fjalla um breytingu á nákvæmlega þessum lögum, þannig að ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd, geri ég ráð fyrir …

(Forseti (ÞorS): Velferðar.)

Velferðarnefnd. Já, þetta fer til hv. velferðarnefndar. Takk fyrir það, forseti. Ég bið nefndina að huga sérstaklega að þessu þegar hún ræðir þessi mál.