149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[19:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er kannski óþarflega flókið orðalag á spurningunni hjá mér. Það sem ég er að horfa í er að nú er komin tillaga að samgönguáætlun þar sem allir flugvellir landsins, nema tveir, þ.e. Sauðárkrókur og Þingeyri, eru sagðir vera hluti af grunnneti samgangna. Þetta þykir mér slæmt en þetta er vandamál sem er hægt að skilja út frá nokkrum þáttum. Flugbrautin á Alexandersflugvelli er t.d. eingöngu úr tjörubundinni krús sem kallað er, þetta er í raun bara bundið slitlag, nokkurs konar, og væri malbikaður völlur mun heppilegri. Þetta er mjög löng braut, sem er gott og mjög heppilegt. En aftur á móti er flugvallarstæðið, flughlaðið, afskaplega lítið. Ef við værum að tala um kannski 50 flugvélar að koma inn frá Ameríku að morgni, þegar gýs einhvers staðar þannig að Keflavíkurflugvöllur lokast og óveður á Akureyri og svoleiðis, þá þarf einhvers staðar að koma þeim 50 flugvélum fyrir á jörðinni. Það er svo sem pláss þarna en ég velti fyrir mér hvort ekki séu til einhverjar ódýrari aðferðir til að byggja upp þetta flugöryggi en að fara þessa tilteknu leið.

Nú er ég alls ekki á móti því að við byggjum upp Alexandersflugvöll og í raun myndi ég vilja fá bæði þann flugvöll og flugvöllinn á Þingeyri inn á samgönguáætlun, sem og aðra lendingarstaði landsins sem hafa ekkert formlegt hlutverk. En þegar við erum að horfa á þennan tiltekna flugöryggisþátt eru kannski til ódýrari og einfaldari leiðir að því að ná þessu markmiði, þó svo að auðvitað ætti uppbygging á þessum flugvelli að fá að eiga sér stað.