149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum dögum spurði ég hæstv. utanríkisráðherra út í svokallaðan þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Eins og hæstv. forseti man eflaust eftir varð ráðherrann frekar ergilegur, vissi ekkert hvað sér ætti að finnast um þennan orkupakka og kenndi því helst um að ég hefði ekki beitt mér nóg á sínum tíma fyrir auknum fjárveitingum til utanríkismála, ef ég skildi hann rétt. Var þá ráðherrann ekki fremstur í flokki þeirra sem vildu auka slík framlög.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp hér í dag, til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í þetta mál, er sú að ég er að vonast eftir því að ráðherra málaflokksins hér innan lands hafi skýrari svör fyrir mig um hvers sé að vænta af stjórnvöldum varðandi þennan þriðja orkupakka.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherrans til þriðja orkupakka Evrópusambandsins og innleiðingar hans?

Þetta er rétti tíminn til að spyrja því að ekki er seinna vænna að gera ráðstafanir eða a.m.k. lýsa afstöðu íslenskra stjórnvalda og fara þá að vinna í samræmi við þá afstöðu, fara að vinna að því að Ísland fái undanþágu frá þessum ákvæðum. Að undanförnu hafa ýmsir menn tjáð sig um þetta mál, málsmetandi menn. Kunnur norskur lagaprófessor varar Íslendinga við því að við séum með þessu að afsala okkur hluta fullveldisins og yfirráðum yfir innlendum orkumálum, hagsmunum okkar á mörgum sviðum. Það hafa íslenskir lögmenn gert líka. Formaður Sambands garðyrkjubænda telur að þetta muni í raun leggja atvinnugrein hans af, hafa veruleg áhrif á matvælaframleiðslu í landinu almennt og svo mætti lengi telja.

Í öllu falli er ljóst að ekki verður búið við algjöra óvissu af hálfu stjórnvalda hvað varðar meðferð þessa máls. Ég vona því að hæstv. ráðherra muni veita mér skýrari svör en ég fékk frá hæstv. utanríkisráðherra fyrir nokkrum dögum. (Utanrrh.: Þau voru mjög skýr.)