149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

upplýsingar um afdrif Hauks Hilmarssonar.

[10:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og áður hefur komið fram hefur allra leiða verið leitað til að komast að því hver urðu afdrif Hauks Hilmarssonar. Við höfum átt gott samstarf við lögregluna en höfum auk þess leita aðstoðar helstu vinaþjóða okkar og ítrekað leitað aðstoðar tyrkneskra stjórnvalda, eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum.

Samstarfsríki okkar vöruðu við því í upphafi að staðan væri einstaklega flókin og erfitt að afla upplýsinga og var reyndin sú að þau hafa takmarkaða aðstoð getað veitt. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum um málið frá tyrkneskum stjórnvöldum og fengið staðfest eftir mörgum leiðum að þarlend stjórnvöld telji Hauk af. Fjölskylda hans hefur verið upplýst um það eins og öll önnur skref sem tekin hafa verið í leitinni að Hauki. Við teljum borgaraþjónustuþætti málsins lokið í bili en lögreglan rannsakar málið sem mannshvarf. Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra yfirvalda í tengslum við þetta mál. Íslensk stjórnvöld munu einnig tala áfram fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlegum mannréttindum í Tyrklandi og annars staðar í tvíhliða samskiptum og á alþjóðavettvangi eftir því sem tækifæri gefst, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópuráðinu og hjá ÖSE.

Af því tilefni ráðleggur utanríkisráðuneytið Íslendingum eindregið frá því að ferðast á óörugg svæði þar sem geta stjórnvalda til að aðstoða þá er mjög takmörkuð. Borgarar Norðurlandanna ferðast á slík svæði á eigin ábyrgð og geta gert ráð fyrir því að þurfa að leita til næsta sendiráðs, sem getur verið í þó nokkurri fjarlægð, til þess að fá borgaraþjónustu. Upplýsingar um ferðaviðvaranir nágrannaríkja okkar eru aðgengilegar á vef utanríkisráðuneytisins og eru Íslendingar sem hafa hugsað sér að ferðast til slíkra svæða hvattir til að kynna sér þau mál þar.