149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka flokksbróður mínum og félaga, Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir þessa þörfu umræðu. Hvers vegna líður drengjunum okkar svona illa? Geta einhverjar rannsóknir eða tölur á blaði sagt okkur til um það? Ég veit það ekki. Ég horfi bara á staðreyndirnar í samfélaginu í dag. Ég horfi á stóran hluta barnanna okkar líða skort. Ég horfi á börnin okkar á flótta vegna þess að þau hafa ekki fasta búsetu. Ég horfi á óöryggi þar sem þeim tekst ekki að skjóta rótum. Ég sé karla og konur, drengi og stúlkur, og ég veit sem móðir að þau eru bara alls ekki eins. Það er mismunandi á milli einstaklinga hvernig þeim líður og hvernig þeir geta tekist á við tilveruna á ólíkum grunni.

En það er algjörlega óumdeilt að við þurfum að hlúa að grunnþörfum samfélagsins, grunnþörfum barnanna okkar, tryggja þeim öryggi í skólum; vera með snemmtæka íhlutun ef við finnum að þeim líður illa. Við þurfum að koma til móts við þau á þeirra grundvelli, þar sem þau eru stödd og hlusta á þau. Það er þar sem mér finnst þetta samfélag okkar hafa stórlega misstigið sig. Við erum orðin svo upptekin af okkur sjálfum og lífsgæðakapphlaupinu að við hreinlega gleymum framtíðinni sem liggur í börnunum okkar.

Mér finnst ástæða til þess að taka utan um þau þar sem þau eru stödd og tryggja þeim örugga framtíð, tryggja þeim fæði, klæði og ekki síst öruggt skjól. Hvernig í veröldinni mundi okkur sjálfum líða ef við værum alltaf á faraldsfæti og vissum ekki hvort við værum að koma eða fara? Það er nákvæmlega þannig. Það eru ekki allir sem geta tekist á við slíka erfiðleika. Og sannarlega sjáum við það á þessum degi eineltis, árlegum degi eineltis og kynferðisofbeldis 193 landa Sameinuðu þjóðanna.