149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, við höfum ekki gert sérstaka úttekt á því hverju þetta hefur skilað. Hins vegar finnum við fyrir gríðarlega miklum stuðningi frá hagsmunasamtökum við þessar lagabreytingar og velkjumst ekki í vafa um að við erum á réttri leið með að þróa regluverkið.

Auk þess, eins og ég nefndi áðan, er þetta endurgreiðslukerfi í anda þess sem aðrir gera, við fylgjumst með stefnum og straumum í því efni frá öðrum löndum. Að hluta til snýst þetta um að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi.

Sömuleiðis var spurt um skilgreiningu á nýsköpuninni. Það hefur verið í höndum Rannís að fylgja eftir því eftirliti. Það er skemmst frá því að segja að umfang þeirrar starfsemi hefur verið langt umfram áætlanir og við þurfum að styrkja þá stoð. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki vafist fyrir mönnum að að búa til rétta skilgreiningu, en umfangið (Forseti hringir.) er langtum meira en við gerðum ráð fyrir.