149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er auðvitað alltaf matsatriði hvernig reglur af þessum toga geta haft áhrif á vinnuumhverfi starfsmanna. Almennt verður að telja að það geti ekki verið þannig að menn séu sérstaklega útsettir fyrir þrýstingi á að fjárfesta í eigin fyrirtæki, en það er ekki hægt að útiloka að það geti gerst.

Reglan eins og hún var hugsuð í upphafi var kannski sniðin að því að mæta þörfum fjárfesta, þeirra sem væru í því að fjárfesta í nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum. Þá er ég að meina sérstaklega sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Í því samhengi þótti ekki óeðlilegt að reglurnar tækju ekki til starfsmanna sem almennt eru ekki fagmenn í því að taka slíkar ákvarðanir. Þessi regla hefur sætt nokkurri gagnrýni úr geiranum. Við því er brugðist hér. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væru mjög óæskileg áhrif ef þau yrðu afleiðingin.