149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú vill þannig til að á fundi hjá Samtökum iðnaðarins fyrir síðustu kosningar lofuðu flestir flokkar og í raun allir stjórnarflokkarnir því að afnema endurgreiðsluþakið. Ég vildi að vísu ekki ganga svo langt á þeim fundi einmitt með þeim rökum sem hæstv. ráðherra fer nú með, þannig að þetta er kannski áminning um að kosningaloforð þurfa að vera vel ígrunduð.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna á bara að framlengja þetta til þriggja ára? Vegna þess að fyrirsjáanleikinn er mjög mikilvægur fyrir alla í allri nýsköpun og fjárfestingum af því tagi. Er ekki kominn tími til að við gerum það varanlegt?