149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já ég get svo sem tekið undir að þetta er auðvitað alltaf tilraunastarfsemi. En með því að gera þetta varanlegt núna mundi það búa til ákveðinn fyrirsjáanleika sem væri af hinu góða. Svo má auðvitað afnema hann síðar, en það yrði svo sem brestur á þeim fyrirsjáanleika.

En úr því að hæstv. ráðherra nefnir skattaívilnanir til erlendra sérfræðinga langar mig samt til að spyrja sérstaklega hvort ráðuneytið hafi skoðað einhverjar aðrar leiðir til stuðnings en endurgreiðslu. Ég vísa til þess að hvorugt þeirra tveggja landa sem standa allra landa fremst í nýsköpunarstuðningi í heiminum samkvæmt ýmsum greiningum, þ.e. Svíþjóð og Sviss, er með endurgreiðslu af því tagi sem við ræðum hér, en þau eru bæði með mjög fjölbreytta flóru af ýmiss konar stuðningi við bæði rannsóknarfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki og jafnframt sprotafyrirtæki.