149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þori ekki að úttala mig um hvernig beri að túlka ríkisstyrkjareglurnar í þessu efni, en ég leyfi mér að efast um að það að afnema þakið eitt og sér myndi klaga upp á reglurnar, það færi þá eftir framkvæmdinni á því. Líklega er það rétt hjá hv. þingmanni að það þyrfti að gæta að því að í einhverjum tilvikum værum við að opna fyrir stuðning við félög sem féllu ekki undir þá meginhugsun sem liggur að baki stuðningi af þessu tagi. Ég er ekki sérfræðingur í ríkisstyrkjareglunum varðandi það. En hitt veit ég þó að það eru dæmi um Evrópusambandsríki sem ekki eru með þak. Það eru ýmsar aðrar reglur sem spila kannski saman með engu þaki sem skipta máli í þessu mati. Það þarf örugglega að fara fram einhvers konar heildstætt mat á virkni kerfisins í þessu efni.

Svo eru fyrirtæki að keppa í ýmsu öðru, eins og Írar, sem hafa lækkað (Forseti hringir.) tekjuskattinn á fyrirtæki sem eru (Forseti hringir.) í rannsókn og þróun og mikil samkeppni er um að fá þessi félög.