149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Í seinna andsvari langar mig að inna ráðherrann eftir því hvort fram hafi farið umræða um það hvort skynsamlegt gæti verið að fókusera afslættinum á fáeina skilgreinda geira eða hafa hann breytilegan eftir geirum. Nú er uppi þessi umræða í samfélaginu, a.m.k. að einhverju leyti, að Íslendingar geti ekki vænst þess að verða frábærir í öllum greinum, þ.e. öllum greinum nýsköpunar og þróunar, heldur ættum við kannski fremur að fókusera á þær greinar sem er fyrirsjáanlegt eða líklegt að við getum orðið virkilega sterk í. Ég velti því fyrir mér hvort sú umræða hafi komið upp innan ráðuneytisins að áherslan ætti að vera á tiltekna geira eða vera breytileg eftir geirum.