149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér býsna mikilvægt mál, þ.e. breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, þ.e. skattfrádrátt af hlutabréfakaupum vegna rannsókna og þróunar.

Ég vil í upphafi taka fram að ég tel að hér sé um afar mikilvægt skref að ræða. Við erum að feta okkur áfram á þessari vegferð, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Það má segja að við séum ung þjóð, eða ný þjóð í þessu tilliti, en eins og komið hefur fram í máli ýmissa ræðumanna höfum við náð markverðum árangri á vissum sviðum. Ég efast ekki um að þær raddir sem við heyrum úr samfélaginu um að þessi stuðningur og styrkir hafi skipt sköpum, séu réttar.

Í fyrri liðnum er talað um að framlengja afslátt vegna hlutabréfakaupa, eða stuðning við hlutabréfakaup í fyrirtæki og einstaklinga eða starfsmanna fyrirtækjanna.

Ég held að samhliða því sem kom fram í varnaðarorðum hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, að við þurfum við að fylgjast með því hvort hætta sé á einhvers konar þrýstingi eða þess háttar innan fyrirtækjanna á að starfsmenn leggi til fjármagn, verðum við líka að horfa til þess að ef starfsmenn í nýsköpunarfyrirtæki, eða starfsmenn sem vinna við þróun og rannsóknir í nýsköpunarfyrirtæki, taka ákvörðun um að fjárfesta í fyrirtækinu megi ætla að það auki ytri tiltrú á viðkomandi fyrirtæki, að þeir sem þar starfa treysti sér til að setja eigið fjármagn inn í fyrirtækin. Auðvitað þarf að vera einhvers konar eftirlit með því og ég treysti skattyfirvöldum ágætlega til að gera það. Ég tek að því leyti undir það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir kom inn á áðan, að við verðum að vera vakandi fyrir því að að starfsfólk sé ekki beitt einhvers konar þvingunum.

En varðandi síðan heimildina til skattfrádráttar, að það sé hækkun á frádrætti vegna rannsókna og þróunar, þá er þar einnig á ferðinni mjög mikilvæg leið. Ég kom aðeins inn á það hér áðan að þetta getur skipt fyrirtæki mjög miklu máli. Við verðum líka að muna, sérstaklega í stórum og dýrum rannsóknum, að það kann að vera að þakið verði of lágt. Og einmitt út frá því spinnast þessar vangaveltur mínar um hvort það ætti jafnvel að hlutfalla það í einhverjum tilvikum.

Heimildin er líka mikilvæg í þessu samhengi, þ.e. hækkun á heimildinni, í því samhengi sem við erum akkúrat núna, þ.e. að krónan er að veikjast og þær krónur sem fyrirtæki kunna að setja í þetta kunna að vera aðeins verðminni en ella væri. Því má gera ráð fyrir að það sé mikilvægt að hækka heimildina, auk þess sem fyrirtækin eru náttúrlega líka að stækka og umfang þeirra að aukast.

Það má gera ráð fyrir að nýsköpun og áhugi á nýsköpun aukist við þessa breytingu og þar með að áhrifin á ríkissjóð til lengri tíma verði fremur jákvæð en neikvæð. Hæstv. ráðherra hefur áður minnt mig á það úr ræðustól að ég er ekki sérstakur talsmaður lækkunar skatta og tilheyri ekki stjórnmálasamtökum sem tala sérstaklega fyrir því, alla vega ekki svona „prinsipíelt“, en þarna getur það sannarlega átt við, einkum og sér í lagi ef ávinningurinn fyrir ríkið og fyrir samfélagið getur verið þessi.

En við skulum líka átta okkur á því að hækkunin ein og sér á þakinu úr 300 í 600 millj. kr. getur þýtt einhvers staðar á bilinu 30–40 störf, þ.e. vel launuð störf hjá þeim fyrirtækjum sem ná toppnum á þakinu. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli í íslensku samfélagi. Tökum til að mynda fyrirtæki sem hafa kannski byrjað að hasla sér völl úti á landi, eins og til að mynda fyrirtækið Kerecis, þá getur það skipt þau samfélög þar sem fyrirtækin vaxa og dafna alveg gríðarlega miklu máli, og skipta í því tilliti jafnvel enn þá meira máli en t.d. í stærri byggðarkjörnum eða stærri samfélögum eins og hér sunnan lands.

Það má líka segja að með því að hækka skattfrádráttarheimildina sé að vissu leyti dregið úr áhættu fyrirtækja af því að leggja út í kostnaðarsamar rannsóknir og þróun, og þannig að einhverju leyti komið til móts við þær áhyggjur sem sumir hafa haft varðandi það að skattlagning fyrirtækja sé að verða of há eða sé óhófleg. Þarna getur verið að skynsamlegt sé að mæta þeim áhyggjum sérstaklega, og á sama hátt að mæta þeim áhyggjum sem menn hafa haft af hækkun fjármagnstekjuskattsins. Ef ríkið styður myndarlega við fyrirtækin og eigendur þeirra á fyrri stigum á þann hátt er kannski minni þörf á því að hafa áhyggjur af því að þeir sem leggja peninga í fyrirtæki eða rekstur eiga að njóta sérstakra ívilnana með tilliti til þess arðs sem þeir kunna að hafa á endanum, sérstaklega ef ríkið hefur af sanngirni á fyrri stigum mætt slíkum áhyggjum eins og með þessum hætti.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, herra forseti. Ég hlakka til að takast á við frumvarpið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og mun hlusta sérstaklega eftir þeim athugasemdum sem hæstv. ráðherra og aðrir þingmenn hafa komið hér inn á fyrr í dag.