149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á tvennum lögum. Báðar þessar aðgerðir hafa það að meginmarkmiði að styðja við nýsköpun og nýsköpunarumhverfi hér á landi. Ég vil byrja á að segja að ég er því algerlega sammála og mjög svo hlynnt því. Þrátt fyrir að með einhverjum hætti sé hægt að færa rök fyrir því að við séum að flækja skattkerfið, og almennt sé ég talsmaður þess að hafa það einfalt og hafa hér lága skatta og einfaldleikann að vopni, er það engu að síður viðurkennd staðreynd að ríki keppa hreinlega um fyrirtæki sem stunda nýsköpun, rannsóknir og þróun. Samkeppnin á þeim markaði hefur gert það að verkum að í rauninni er alls staðar boðið upp á sérstakar skattaívilnanir fyrir slík fyrirtæki, vegna þess að mikilvægi þess fyrir atvinnulíf og atvinnustefnu hvers lands er margsannað. Það er einfaldlega mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa fjölbreyttari og fleiri stoðir í atvinnulífi okkar og nýsköpun. Hagnýting rannsókna og þróunar og hugvits er einfaldlega forsenda fjölbreytts atvinnulífs. Með slíkum aðgerðum styrkjum við samkeppnisstöðu landsins.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans. Hann fór mjög vel yfir frumvarpið. Annars er um að ræða skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa og hins vegar skattfrádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Annars erum við í rauninni að framlengja þau ákvæði sem gilt hafa varðandi skattfrádrætti þegar kemur að því að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og er það í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auka aðgengi að fjármagni fyrir bæði nýsköpunarfyrirtæki og smærri fyrirtæki í vexti. Þar eru skattaívilnanir taldar geta skipt sköpum. Því erum við að framlengja ákvæðið með tillögum okkar um þrjú ár til viðbótar. Ég tek heils hugar undir það og langar í því samhengi að tala aðeins um það umhverfi sem þessi fyrirtæki starfa í.

Ég starfaði lengi með nýsköpunarfyrirtækjum fyrir allmörgum árum síðan þegar bankarnir voru í miklum vexti. Í rauninni fór öll fjárfesting á hlutabréfamarkaði inn í þau fyrirtæki sem sumir vildu kannski flokka sem nýsköpunarfyrirtæki á þeim tíma. En þá var það þannig að þessir stóru bankar soguðu til sín bæði fjármagn og hæft starfsfólk og eftir sátu nýsköpunarfyrirtækin og höfðu úr litlu að moða. Kannski er hægt að segja: til lukku fyrir þann geira hrundi bankakerfið, en ekki til lukku fyrir neinn annan. En við lærðum vonandi ýmislegt af þessu.

Við sjáum það núna að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi er mjög veikur og það vantar mjög að almenningur sé tilbúinn að leggja til sparnað sinn og taka áhættu með nýsköpunarfyrirtækjum og minni fyrirtækjum. Ég minnist þess sérstaklega að við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd heimsóttum Kauphöllina þar sem við ræddum einmitt þennan vanda og hvað hægt væri að gera í honum. Þetta er auðvitað ein af þeim aðgerðum sem þau hjá Kauphöllinni mæla sérstaklega með. Nú er staðan reyndar sú að almenningur virðist helst veðja á steinsteypu og það að kaupa fasteignir þegar kemur að því að leggja til sparnað sinn.

En að því sögðu er ég hlynnt því, það var aðeins rætt áðan hvort þetta ætti að vera bara opin heimild, að við værum alltaf með skattfslátt þegar fólk fjárfesti í hlutabréfum í slíkum fyrirtækjum. Hér er verið að tala um þrjú ár til viðbótar. Ég held að það sé skynsamlegt að hafa þetta sem bráðabirgðaákvæði. Það er aldrei að vita nema áherslurnar þurfi að liggja einhvern veginn öðruvísi síðar meir. En þegar kemur að endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðarins þá er þar um að ræða að hækka þakið. Farið hefur verið yfir það. Það var auðvitað stefna þessarar ríkisstjórnar og er enn skrifað í stjórnarsáttmálann að afnema þakið, en á því er ákveðið flækjustig sem ég held að sé mikilvægt að fara betur yfir áður en stigin eru enn stærri skref í þessum efnum.

En ég er hlynnt því að við hækkun þakið þrátt fyrir, eins og kemur fram í ágætistöflu í greinargerðinni, að ekki mörg þessara fyrirtækja takmarkist við þetta þak. Alls þáðu 144 fyrirtæki slíkar endurgreiðslur á síðasta ári og 11 af þeim takmarkast við hámarkið. Þannig að það er ljóst að stór hluti fyrirtækja nýtir sér þessar ívilnanir án þess að þakið hafi truflað hingað til. En ég held samt sem áður að það skipti mjög miklu máli því að með þessu aukum við samkeppnishæfni okkar til að fá hingað til lands ný fyrirtæki sem myndu nýta sér þennan kost.

Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á það sem kom fram á ráðstefnu hjá Samtökum iðnaðarins í gær, sem var mjög áhugavert. Það er ekki oft sem okkur stjórnmálamönnunum er klappað á bakið og í rauninni var klappað sérstaklega fyrir aðgerðunum, en það var gert í gær nákvæmlega hvað þetta varðar, þar sem Samtök iðnaðarins lýstu yfir mikilli ánægju með að til stæði að hækka þetta þak. Þar fóru framkvæmdastjórar og forstjórar fyrirtækja yfir það hversu miklu máli það skipti, bæði fyrir fyrirtæki þeirra en ekki síður atvinnulífið í heild hér á landi. Þrátt fyrir að fram komi í mati á áhrifum af þessu frumvarpi að það geti kostað ríkissjóð eitthvað til skemmri tíma held ég að það sé margsannað, eins og kemur ágætlega fram hér, að það skili sér í öðrum aðgerðum.

Ekki er hægt að taka þær aðgerðir sem fylgja frumvarpinu úr samhengi við það sem við erum að gera almennt á sviði nýsköpunar. Hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er búinn að boða til nýsköpunarstefnu sem okkur verður kynnt í maí á næsta ári þar sem farið er yfir ákveðna þætti. Sérstaklega á að horfa á atvinnulífið með matvæla- og heilbrigðistækni og menntamál að leiðarljósi. Horfa skal sérstaklega á skipulag stuðningsumhverfisins sem við bjóðum upp á hér á landi. Og horfa sérstaklega á umhverfisvænar lausnir. Þar tel ég reyndar að við ættum að geta verið mjög leiðandi á heimsvísu. Horfa á sérstaklega til opinbers rekstrar. Oft hefur verið talað fyrir því að það vanti að horfa sérstaklega á nýsköpun í opinberum rekstri, en það er ekki síður mikilvægt að horfa til þess rekstrar, og einnig heilbrigðis- og velferðarmálanna, sem er málaflokkur þar sem nýsköpunarfyrirtæki hafa staðið sig frábærlega vel. En jafnframt hefur verið bent á að oft stuðli rannsóknir og þróun í þessum geira að því að hækka enn frekar ríkisútgjöld, eða kostnað við þessa liði. Við þurfum kannski líka að fara að huga að því hvar það getur sparað kostnað.

Ég vil nota tækifærið og brýna okkur sem hér erum, og ráðherrana og opinberar stofnanir, til að horfa til þeirra nýsköpunarfyrirtækja starfa hér á landi og hafa verið að þróa lausnir sem eru bæði til þess gerðar að bæta þjónustuna á sviði heilbrigðis- og velferðarmála og jafnframt draga úr kostnaði, og kannski ekki síst að auka aðgengi allra aðila. Þá er ég sérstaklega að hugsa um fjarheilbrigðisþjónustu og annað þess háttar. Við eigum til að mynda frumkvöðul sem vann frumkvöðlaverðlaun Norðurlandaráðs nýverið, mjög áhugaverð lausn sem lýtur að því að bæta aðgengi nema að talmeinaþjónustu eða sálfræðiþjónustu, þannig að það eru mörg tækifæri í þessum efnum.

Íslenskt nýsköpunarumhverfi fær ágætisdóma í samanburði við önnur lönd. Við erum talin vera þar sem er kallað er, með leyfi forseta, „strong innovators“ eða sterkir nýsköpunaraðilar, eða frumkvöðlar, og erum þar af leiðandi í þeim hópi þegar Evrópusambandið metur nýsköpunarumhverfi þessara landa. Það er reyndar svo að við höfum eiginlega staðið í stað frá 2010 á meðan lönd sem við gjarnan berum okkur saman við hafa verið að bæta sig verulega. Vil ég þá sérstaklega nefna Noreg í þeim efnum. Norðmenn hafa stokkið svolítið til á síðustu árum. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að við séum alltaf á tánum varðandi það hvar við getum bætt okkur.

En það sem talið er vera okkar styrkleikar er að við séum með nýsköpunarvænt umhverfi og rannsóknarumhverfi okkar og ætti að laða aðra að. Það er kostur. En veikleiki okkar eru einkaleyfi og fjöldi þeirra. Það er ekkert nýtt. Það hefur fylgt okkur alla tíð frá því að við vorum að mæla þessa hluti. Ég held að í nýsköpunarstefnu okkar og öllum þeim aðgerðum sem við beinum að þessu eigum við að horfa sérstaklega til þessara veikleika. Hvernig getum við bætt úr þarna? Ég hef til að mynda bent á það hér, bæði í fyrirspurnum og ræðum, að það er ótrúlegt að á þeim sviðum sem við erum mjög sterk í alþjóðlegum samanburði, nefni ég þá sérstaklega jarðhitann, skuli ekki vera til fleiri einkaleyfi í eigu íslenskra aðila. Úr því þarf að bæta.

Ég sit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og hlakka til að fá þetta frumvarp þar inn til umfjöllunar. Það er reyndar einn þáttur sem mig langar að nefna hér. Ég veit ekki hvort ráðherra vill bregðast eitthvað við því, en ég velti aðeins fyrir mér tvískiptingunni þegar kemur að endurgreiðslum. Annars vegar getur verið um að ræða innri kostnað fyrirtækjanna, að þau ráði til sín starfsfólk eða stundi með einhverjum hætti rannsóknir og þróun sem þau geta fengið endurgreiðslu út á, og hins vegar er þátturinn sem lýtur að aðkeyptri aðstoð, þ.e. maður getur unnið með háskólum eða öðrum fyrirtækjum og rannsóknaraðilum að nýsköpun og þar getur maður fengið endurgreiðslu. Sá þáttur, sem sagt aðkeyptur rannsókna- og þjónustuþáttur, er hærri en kostnaðurinn sem er innan húss.

Ég velti fyrir mér hver hafi verið rökin í upphafi þegar það var sett á. Ég skil að það sé æskilegt að að hvetja til þess að fyrirtæki leiti sér utanaðkomandi ráðgjafar. Það geti verið ákveðinn akkur í því að fyrirtæki vinni þvert yfir landamæri, í samstarfi við háskólana. En ég velti því líka fyrir mér hvort þetta geti með einhverjum hætti haft einhverja neikvæða hvata í för með sér.

Ég nefni það hér vegna þess að ég fór í heimsókn til Knox Medical fyrir síðustu kosningar þar sem Pétur Halldórsson, forstjóri fyrirtækisins, nefndi þennan þátt og taldi að þetta gæti og hefði í einhverjum tilfellum haft þau áhrif að þau gátu ekki ráðið inn starfsfólk heldur þurftu að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf. Hann velti fyrir sér hvort þetta væri farið að vinna gegn sjálfu sér ef ekki ætti ávallt að vera hvati til þess að ráða inn í fyrirtæki þegar svo bæri undir. En í mörgum tilfellum eru fyrirtækin örugglega mjög lítil og eðlilegt að horft sé til aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarþjónustu.

Við munum kannski velta því upp í nefndinni. Án efa eru einhverjar skýringar á því hvers vegna þetta var sett inn í upphafi. Ég sé að í frumvarpinu er ekki breytt neinu hvað þetta varðar. Það er bara verið að hækka þökin. En mér finnst alla vega ástæða til þess að vekja máls á þessu og reikna með að fá einhver svör við því þegar við förum yfir þetta frekar í nefndinni.

Ég held að ég hafi þetta ekki mikið lengra. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps og vil hvetja okkur öll áfram í þeim efnum er lúta að því að auka hér nýsköpun. Ég held að Ísland hafi alveg ótrúlega stór og mikil tækifæri þegar kemur að því að laða að nýsköpunarfyrirtæki og ýta undir rannsóknir og þróun og tækniyfirfærslu.