149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[13:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu máli. Öll skref sem stigin eru í þá átt að auka stuðning við rannsóknir og nýsköpun eru af hinu góða. En hér er um gríðarlega mikilvægan stuðning að ræða og kannski sér í lagi hvað varðar endurgreiðslu vegna kostnaðar nýsköpunarfyrirtækja við rannsóknir og þróun og eins og sýnir sig í töflu þeirri sem fylgir þessu frumvarpi hafa fyrirtæki verið að nýta sér þennan möguleika í vaxandi mæli. Frádráttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar á síðasta liðnu ári nam tæpum 3 milljörðum og 144 fyrirtæki nýttu sér þennan möguleika.

Það sem ég velti hins vegar alltaf dálítið fyrir mér þegar þessi mál ber á góma, og kannski sér í lagi ákveðin viðhorf til nýsköpunar og þróunar í fjármálaráðuneytinu, er að það virðist svo gjarnan vera litið á þetta fyrst og fremst sem kostnað. Þó að við höfum verið að feta okkur í rétta átt í þessum efnum hefur frá upphafi verið töluverð tregða til þess að afnema þakið á endurgreiðslum. Kemur m.a. fram í greinargerð með frumvarpi þessu að slíkt afnám kynni að brjóta gegn ríkisstyrkjareglum Evrópusambandsins. Nú er reyndar slíkt afnám á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar síðast þegar ég vissi og flestir flokkar hér á þingi verið slíku afnámi fylgjandi. Raunar held ég að þó nokkur Evrópuríki séu með stuðning sem þennan án nokkurs þaks. Það væri þá áhugavert í það minnsta að fá skýrari svör við því hvort slíkt bryti raunverulega gegn þeirri reglugerð Evrópusambandsins sem vísað er til í frumvarpinu, eða hvort að þær byggjast á einhverjum misskilningi. Síðast þegar ég vissi eru lönd eins og Bretland og fleiri ekki með neitt þak á þessar endurgreiðslur.

Ef við byrjum á fyrri hluta þessa máls sem snýr að skattaívilnunum vegna fjárfestinga einstaklinga í hlutabréfum eru þær breytingar sem hér eru lagðar til vissulega til góða og til þess fallnar að einfalda einstaklingum eitthvað að nýta sér þennan möguleika. Ef maður les hins vegar þetta ágæta frumvarp, 30. gr. laga um tekjuskatt frá árinu 2003, verður maður eiginlega að viðurkenna að greinin er skrifuð að því er virðist með því hugarfari að enginn fari að ana út í þá vitleysu að nýta sér þennan rétt. Þetta er svo flókið og slík skilyrði eru sett fyrir nýtingu skattafsláttarins að það getur eiginlega ekki hafa verið ætlan löggjafans með ákvæðinu að það yrðu einhver raunveruleg not af þessum réttindum, enda er það líka niðurstaðan að kostnaður ríkissjóðs á síðastliðnu ári vegna þessa nam 40–50 millj. kr. og kostnaðarmat á þeim breytingum sem við ræðum hér er óverulegt.

Ég held að við hljótum að þurfa að huga að því hvernig við örvum almenna fjárfestingu einstaklinga í hlutabréfum, hvort sem er nýsköpunarfyrirtækja eða fyrirtækja almennt skráðum sem óskráðum, ekki þannig að verið sé að ýta undir of mikla áhættutöku hjá einstaklingum. En staðreyndin er hins vegar sú að þátttaka almennings, einstaklinga, í beinni fjárfestingu í atvinnulífinu er mjög lág hér á landi samanborið við önnur lönd. Hluti af því kann að skýrast af því að að sparnaður okkar í gegnum lífeyrissjóði og þar af leiðandi söfnunarsjóði sem slíka er óvenju mikill, en það breytir því ekki að í raun og veru hefur fjárfesting einstaklinga eða almennings í hlutafé aukist mjög lítið allar götur eftir hrun ef við berum okkur saman við önnur lönd. Hér held ég að mætti ganga miklu lengra í að veita almenna skattafslætti til fjárfestinga í hlutabréfum fyrir einstaklinga og einfalda það lagatorf til mikilla muna sem nú gildir um málið.

Þegar kemur síðan að stuðningi við nýsköpun segi ég enn og aftur að það er oft eins og við óttumst hreinlega að fyrirtækið nýti sér réttinn. Það hefur þó færst til betra horfs á undanförnum árum. Sennilega eru tvö eða þrjú ár liðin frá því að þessu þaki var síðast lyft úr 150 millj. kr. í 300 millj. kr., sem hér er þá verið að tvöfalda í 600 millj. kr.

Það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins er að það eru í raun og veru sárafá fyrirtæki sem slá í þetta þak í dag í það minnsta af þeim fyrirtækjum sem nýtt hafa þennan rétt til þessa. Á síðasta ári voru þau 11 talsins sem náðu hámarki.

Ég velti dálítið fyrir mér í þessu samhengi af því að einn meginvandi okkar þegar kemur að nýsköpun í atvinnulífinu hefur verið að við erum með mjög kraftmikla rannsóknar- og sprotastarfsemi. Við erum mikla flóru nýrra fyrirtækja á markaði, en okkur virðist ganga talsvert verr að koma þeim á legg en t.d. nágrönnum okkar þegar kemur að því að hagnýta þekkinguna, þar verður okkur ekki eins ágengt og í sköpun hennar. Það leiðir hugann að því að eins mikilvægur og þessi stuðningur er fyrir smæstu fyrirtækin er ávinningurinn fyrir ríkissjóð sennilega hvað mestur þegar kemur að nýsköpun og þróunarstarfi stærri fyrirtækja. Það er líklegast að þau fyrirtæki sem þegar eru komin á legg nái að hagnýta þessa þekkingu til aukinna tekna og þar með fjölgunar starfa og aukinna skatttekna fyrir ríkissjóð.

Þess vegna tel ég beinlínis óskynsamlegt að setja þak á endurgreiðsluna líkt og hér er gert og allt eins líklegt að þau fyrirtæki sem þegar eru farin að færa þá rannsóknarstarfsemi úr landi vegna þessa þaks, sem nýta sér það svigrúm sem þau fá eða stuðning annarra ríkja til slíkrar starfsemi, haldi því áfram. Við eigum þvert á móti að hvetja til þess að þau fyrirtæki sem hér eru nýti sér sem mest að hafa rannsóknar- og þróunarstarf sitt hér. Jarðvegurinn hér er mjög frjór. Talað er mjög vel um samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja okkar, þekkingarfyrirtækja okkar þegar kemur að þessum þætti starfseminnar, þegar kemur að nýsköpuninni sjálfri, rannsóknunum. En síðan er erfiðara að keppa þegar kemur að eiginlegri framleiðslu og framleiðslukostnaði og óstöðugleika þar.

Þess vegna held ég að öll rök hljóti að hníga að því að við afnemum þetta þak að fullu og væri ákjósanlegast að lengra yrði gengið í þeim efnum. Vonandi auðnast okkur það. Ég trúi ekki öðru miðað við þann kostnað sem af þessu ætti að hljótast að það ætti vel að vera hægt að gera.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson lagði fyrir hæstv. fjármálaráðherra á síðasta ári kom fram að kostnaðurinn miðað við þáverandi fyrirkomulag af því að afnema þakið að fullu ætti að nema um 300 millj. kr. á ári. Það hlýtur að fela í sér að sennilega erum við svo gott sem búin að dekka málin með hækkun þakanna. En það er kannski engin ástæða til að vera með þak yfir höfuð, heldur leyfa fyrirtækjum, tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum, hér heima fyrir að vaxa og dafna með fullum stuðningi áfram, enda eru þekking og þróunarstarf alveg jafn verðmæt fyrir okkur hvort sem það er unnið í litlum fyrirtækjum eða stórum og á ekki að setja nein mörk þar á.