149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Þetta er held ég bara gott mál. Þarna er að finna nokkuð sjálfsagðar breytingar að mínu mati. Þær leiða af eðli máls. Það eiga væntanlega eftir að koma enn frekari breytingar þar sem verið er að innleiða Evrópusambandstilskipanir í þessum efnum.

Þarna eru tvær breytingar, annars vegar gagnvart endurskoðendum eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og hins vegar takmarkanir á öðrum störfum stjórnarmanna í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum. Ég geri engar athugasemdir við breytinguna hvað varðar önnur störf stjórnarmanna og takmarkanir í þeim efnum. Hún hefði jafnvel mátt ganga lengra að mínu mati. En það er sú áhugaverða breyting þarna að verið er að skylda endurskoðenda til að veita Fjármálaeftirlitinu tilteknar upplýsingar. Ég get ekki betur séð en að þarna sé gengið framar trúnaðarskyldu endurskoðenda. Það væri áhugavert að vita, ef hæstv. ráðherra þekkir það, hvort sjónarmið endurskoðenda um þetta tiltekna atriði, í 4. gr. sem verður síðan 92. gr. laganna, hafi komið fram og hvort hæstv. ráðherra geti upplýst um það.