149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[13:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Gott að það kom fram hjá honum að þetta verði skoðað í þinglegri meðferð innan nefndarinnar. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá sjónarmið endurskoðenda fram hvað þetta varðar.

Það er skýrt ákvæði í lögum um endurskoðendur, í 30. gr. laga nr. 79/2008, þar sem fjallað er um þagnarskyldu endurskoðenda. Þar segir að þeir séu bundnir þagnarskyldu „um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls“. Síðan er hægt að grípa inn í með dómsúrskurði eða ef það er lagaskylda. Þarna gengur sem sagt þetta ákvæði í frumvarpinu framar ákvæði í lögum um endurskoðendur.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra nefndi að þetta verði tekið til skoðunar innan nefndarinnar og fengið sjónarmið endurskoðenda. Þar sem þetta snýr beint að þeim held ég að það sé mjög nauðsynlegt.