149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[14:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu frumvarpi sem mun seint vinna titil sem skemmtilegt eða auðlesið frumvarp. En mig langaði til að beina stuttri spurningu til hæstv. ráðherra. Frumvarpið byggist fyrst og fremst á tilskipunum frá Evrópusambandinu, ef ég skil það rétt. Þá langar mig að vita: Er um hreint innleiðingarfrumvarp að ræða eða eru þarna líka aðrar leiðir sem við erum að bæta inn í regluverkið?

Í öðru lagi spyr ég út í takmarkanir á fjölda stjórnar- og framkvæmdastjórnarstarfa sem einstaklingar geta sinnt. Telur ráðherra að þessi regla — þegar hún tæki gildi, sem yrði ekki fyrr en 2020 samkvæmt frumvarpinu, ef ég les rétt út úr því — gæti haft góð áhrif til að auka fjölbreytileika stjórnarmanna hér á Íslandi? Ég átta mig á því að við erum að tala um afmörkuð fyrirtæki, kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, en það hefur oft verið rætt að það sé tiltölulega einhæfur hópur sem sitji í stjórnum margra fyrirtækja á Íslandi. Sérstaklega hafa verið nefnd kynjahlutföllin, að of fáar konur sitji í stjórnum og það séu þá oft sömu konurnar sem sitja í mörgum stjórnum. Það er eins og við náum ekki stundum að horfa út fyrir hópinn því að ég efast ekki um að hér sé mikið af hæfum einstaklingum, bæði körlum og konum, til að sitja í stjórnum þessara fyrirtækja. En telur ráðherra að þetta gæti kannski bætt þá stöðu eitthvað?