149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[14:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst benda á að það er ákveðinn megintilgangur með ákvæðinu sem á rætur sínar að rekja til þess að þetta geta verið snúin og krefjandi störf að taka að sér. Þó ber að líta á það að við erum hér að innleiða reglugerð sem fjallar um fjármálafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu og eins og ég vék að í framsögu minni er ekki það sama fjármálafyrirtæki og fjármálafyrirtæki. Í því sambandi höfum við litið til þess að reglurnar ættu fyrst og fremst eins og frumvarpið ber með sér — reyndar eingöngu — að taka til kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Hvort það mun mögulega leiða til meiri fjölbreytni er ekki alveg gott að segja til um, en það er alveg gilt sjónarmið, sem hér er haldið á lofti, að það geti skipt máli, bæði hvað varðar fjölbreytta reynslu og eins kynjahlutföll.

En fyrst og fremst er það markmiðið með reglunum, sem hér er verið að spegla yfir íslenska löggjöf, að menn hafi ekki tekið að sér svo flókin verkefni og gegni ekki svo mörgum trúnaðarstörfum í stórum fjármálafyrirtækjum að þeir tapi yfirsýn.