149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[14:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Kannski hnykki ég aftur á því hvort hér sé um að ræða, eins og við orðum það oft, hreint innleiðingarfrumvarp. En ég tek bara undir það að það er nú yfirleitt þannig þegar við fáum svona tilskipanir frá Evrópusambandinu að markmiðin eru yfirleitt allra góðra gjalda verð — en stundum kann að vera erfitt að lesa sig í gegnum textann og átta sig á því hvort þau eigi algerlega við hér á landi við okkar aðstæður. Ég lýsi því þó yfir að ég tel mjög mikilvægt að lög varðandi fjármálafyrirtæki hér á landi uppfylli þessa staðla, bara til að stuðla að samkeppnishæfni þessara fyrirtækja og slíkt. Ég held að við förum vel yfir þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

En það væri ágætt að heyra frá ráðherranum hvort hér sé um hreint innleiðingarfrumvarp að ræða eins og það er kallað. Iðulega hefur verið kallað eftir því af okkur þingmönnum að það liggi ljóst fyrir því að oft eru aðrir þættir í frumvörpunum og mikilvægt fyrir okkur, þegar við erum að fara yfir það í nefndunum, að átta okkur nákvæmlega á því hvaða liðir eru tilkomnir vegna tilskipunar Evrópusambandsins sem við erum að taka í lög. Stundum eru aðrir þættir þarna inni líka og það er gott að það liggi algjörlega ljóst fyrir. Ég viðurkenni að ég er ekki búin að lúslesa frumvarpið. Það kann að vera að það komi með skýrum hætti fram hvort svo er.