149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lét þess getið hér í framsöguræðunni að það regluverk sem við erum að laga okkur að í þessu tilviki hefur ekki verið tekið upp í EES-réttinn. Það breytir því ekki að við höfum talið skynsamlegt að hefja samþættingu regluverksins fyrir fjármálafyrirtæki við Evrópuréttinn. Þetta er gríðarlega umfangsmikið regluverk sem augljóslega mun enda inni í EES-réttinum og það getur tekið mörg ár, frómt frá sagt, að fullgera allar þær lagabreytingar sem fylgja.

Við höfum á fyrri stigum máls kynnt það hverju sinni að um sé að ræða breytingar sem tengist regluverki sem væri að sigla inn í EES-samninginn en væri ekki orðið hluti hans. Að því leytinu til erum við að búa í haginn fyrir umfangsmiklar breytingar á regluverki fjármálafyrirtækja sem eru í farvatninu.

En fyrst svona er hefur þingið auðvitað fullkomlega frjálsar hendur að EES-rétti. Það eru sem sagt engar skuldbindingar komnar af nokkru tagi til þess að taka regluverkið upp. En við höfum lagt það mat á stöðuna fram til þessa að þær efnisbreytingar sem hafa verið gerðar, og sömuleiðis það sem hér er um að ræða, séu góðar breytingar sem muni bæta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja í landinu.