149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta bar frekar fljótt að. Nú er þetta að ýmsu leyti ágætistillaga sem kemur fram af hálfu Miðflokksins. Brýn þörf er á endurbótum í flugöryggismálum á Íslandi og varaflugvöllum ekki síst. Það eru þó nokkur atriði við þessa tillögu sem þörf er á að nefna. Í fyrsta lagi nefndi ég í andsvörum í gær að það væri gagnrýnisvert að hvorki Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki né flugvöllurinn á Þingeyri væru á samgönguáætlun sem stendur. Það er ekki galli við þessa tillögu en er galli við það hvernig við nálgumst grunnnet flugumferðar og flugsamgöngumannvirkja heilt yfir; þetta eru einu tveir flugvellir landsins sem eru ekki inni á grunnnetinu. Þá er ástæða til að velta því fyrir sér hvort einhver önnur aðgerð sé eðlilegri í þessu samhengi, og kannski ekki jafn kostnaðarsöm og það að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll. Ég er þó alls ekki að mæla gegn því að við förum út í þær aðgerðir.

Alexandersflugvöllur hefur marga kosti, t.d. 1.887 m langa braut. Hún er þó eingöngu með tjörubundna grús sem yfirborð sem er ekki alveg nógu gott. Það mætti gjarnan malbika brautina. Stóru vandamálin við Alexandersflugvöll eru annars vegar áferð brautarinnar en hins vegar að flughlaðið sjálft er ekki mjög stórt. Erfitt er að koma mjög mörgum flugvélum fyrir þar. Til þess að setja það í ákveðið samhengi þá eru á hverjum morgni milli 40 og 50 flugvélar frá íslenskum flugfélögunum, að öðrum flugfélögum ógleymdum, á leið milli Norður-Ameríku og Íslands. Flestar þeirra myndu kannski taka nægjanlegt eldsneyti til að geta komist til Glasgow ef þörf væri á. Þó koma vélar frá vesturströnd Bandaríkjanna sem myndu hreinlega ekki drífa þangað ef eitthvað stórvægilegt kæmi upp á. Einhverjum flugvélum er í dag hægt að koma fyrir á Akureyrarflugvelli og á Egilsstaðaflugvelli en þar er þó tilfellið, eins og með Alexandersflugvöll, að ekki er hægt að koma mjög mörgum flugvélum fyrir. Á Alexandersflugvelli er kannski hægt að koma einni eða tveimur vélum fyrir á flughlaði áður en þar fyllist, á Akureyri kannski fjórum eða fimm og það er ekki nóg til að takast á við vandamálið.

Mér finnst ástæða til þess að við hugsum um þetta með það fyrir augum að geta leyst það vandamál að lenda 40–50 flugvélum annars staðar en á Keflavíkurflugvelli með stuttum fyrirvara ef þörf er á. Þá fer maður að skoða hvaða innviðir eru til staðar. Bæði Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur eru með ILS-búnað sem dæmi sem er aðflugsbúnaður sem gerir flugvélum kleift að lenda þó svo að ekki sjáist niður. Þessu þyrfti að bæta við á Alexandersflugvelli til að þetta myndi ganga upp. Þar að auki er miklu nákvæmari og meiri leiðsögubúnaður á báðum þessum flugvöllum og það er til viðbótar við það að flughlað er stærra og brautin er malbikuð. Það gefur augaleið að þær hugmyndir sem hafa verið uppi, um að leggja flugbraut samsíða braut á Akureyri og Egilsstöðum, yrðu miklu ódýrari og vænlegri kostur til að taka á þessum vanda.

Nú segi ég þetta með þeim fyrirvara að ég er ekki á móti þessari tillögu. Mér finnst ágætt að við byggjum Alexandersflugvöll upp. Það eru mörg góð rök fyrir því sem eru tiltekin í greinargerð tillögunnar. Það má líka alveg hugsa þetta sem leið að því að byggja upp innviði almennt í landinu. Við vitum að nú er mikið álag á Keflavíkurflugvelli. Það hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að dreifa álaginu. Með álagsstýringunni kemur aukið öryggi en líka auknir efnahagslegir möguleikar.

Það er hið besta mál að beina meiri traffík inn á Akureyri og Egilsstaði og það er ágætisnálgun að hugsa svolítið breitt í þessu samhengi. Þessu til viðbótar er kannski rétt að benda á að víðar en á Sauðárkróki eru einföld tækifæri til að gera betur. Brautin á Sauðárkróki er mjög löng og í raun þyrfti lítið að gera til þess að flugvöllurinn þar gæti orðið bærilegur og öflugur fyrir umhverfið þar í kring. Á Höfn í Hornafirði er líka góð braut og góður flugvöllur. Það þyrfti helst að lengja aðeins í og einnig þyrfti blindflugsbúnað þar og möguleika á því að lenda flugvélum sem eru að koma að utan. Tillaga um þetta hefur nokkrum sinnum komið fram á þingi frá þingmönnum Suðurkjördæmis og er ástæða til að skoða hana í þessu samhengi.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég er ekki á móti þessari tillögu, ég held bara að kannski sé verið að forgangsraða á röngum stað. Það er pínulítil kjördæmapotslykt af þessu. Ekki að það sé endilega slæmt, þingmenn kjördæmis eru kjörnir til þess beinlínis að huga að málum kjördæma sinna, en það væri augljóst fyrsta skref að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Þetta er því kannski fyrst og fremst spurning um forgangsröðun. Svo er talað um það meðal flugmanna sem ég þekki til að sá flugvöllur sem skipti langmestu máli sé sá sem er næst manni þegar eitthvað kemur upp á. Þannig að auðvitað skulum við reyna að stuðla að góðum flugvöllum úti um allt land.