149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt að það eru mörg tækifæri, og oft einföld og ódýr, til að byggja upp flugsamgöngunetið. Ég nota tækifærið í svari við andsvari til að spyrja hv. þingmann að því í hvaða tímaramma hann sér fyrir sér að þessi uppbygging ætti að eiga sér stað. Er hann sammála mér í þeirri forgangsröðun að bæta við akbraut á Akureyri og Egilsstöðum fyrst og taka svo Alexandersflugvöll fyrir? Upplýsingar um það gætu hjálpað mjög mikið.

Nú eru þessir tveir flugvellir sem ég nefndi, á Þingeyri og á Sauðárkróki, utan við grunnnet samgangna samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samgönguáætlun. Er ekki eðlilegast að bæta þeim inn og gefa jafnframt öðrum lendingarstöðum — og þeir eru nokkuð margir skráðir lendingarstaðir á landinu — eitthvert hlutverk í samgönguáætlun, bæði í þágu flugöryggis en líka hreinlega til þess að skilningur sé á því, þó svo að fjármagn fylgi ekki endilega strax, að þær brautir eru til staðar? Þær skipta mjög miklu máli, ekki síst fyrir flugþjálfun en líka fyrir innanlandsflug og annað. Þarf ekki að gera grein fyrir þeim í samgönguáætlun, að þær eru til staðar og skipta máli þó svo að þær séu ekki endilega á sama stigi og á stærri flugvöllum? Ég er kannski að nýta mér svar við andsvari til að spyrja spurninga en þannig er það.