149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist við vera nokkuð sammála um mikilvægi þess að ná þessum árangri. Forgangsröðun er alltaf okkar hundleiðinlega verkefni, að þurfa að slá sumum hlutum á frest í þágu annarra. Í öllu falli er þetta fín tillaga og ég myndi leggja til, samhliða meðferð þessarar tillögu, að samstaða næðist um að gera þessar breytingar á samgönguáætlun þannig að Alexandersflugvöllur fái þann sess sem aðrir flugvellir fá í áætluninni og að sama skapi að við höldum þessu samtali áfram. Það er nefnilega mikil þörf á þessari uppbyggingu.

Að lokum varðandi kjördæmapot: Mér heyrist Norðvesturkjördæmi vera með ágætisfulltrúa sem eru að huga að sínum málefnum og það er hið besta mál.