149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:28]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Sem flugáhugamaður þá langar mig að taka þátt í þessum áhugaverðu umræðum. Loftferðir eru jú mikið í umræðunni eins og sagt er. Þetta eru í sjálfu sér almenningssamgöngur eða eiga að vera almenningssamgöngur á Íslandi vegna þess að við höfum ekki aðra möguleika. Flugið er sem sagt okkar járnbrautarsamgöngur. Þegar ég segi sem svo þá felst í því sú þörf að komast hratt á milli staða og örugglega, frá nánast miðbæ þéttbýlis einhvers staðar til höfuðborgarinnar, nánast í miðbæinn helst, og öfugt. Þetta fyrirkomulag er til í öðrum löndum og við eigum að mínu mati að reyna að hugsa flugsamgöngur sem okkar járnbrautarsamgöngur.

Þar kemur þá að skyldum ríkisins. Þær eiga að vera nokkrar og felast í því að auðvelda þessar samgöngur. Skyldur sveitarfélaga eru líka ríkar. Þau þurfa að tryggja nánd svona samgöngumannvirkja og þar kemur auðvitað að höfuðborginni líka. Hún hefur ekki bara skyldur við sjálfa sig þegar kemur að t.d. Reykjavíkurflugvelli, heldur líka skyldur gagnvart landsbyggðinni.

Ég ætla ekki að fjalla um flugmálin út frá verðum eða skosku leiðinni eða hvað eina, heldur um það sem hér er undir, gerð og staðsetningu ákveðinna flugvalla. Þannig háttar nefnilega til að það eru skyndilega komin fram allmörg þingmál sem varða flugvelli, snerta t.d. fjóra varaflugvelli sem núna eru komnir á dagskrá ef við getum orðað það þannig, það er sem sagt Reykjavík og Akureyri, Egilsstaðir og svo það sem þetta nýja mál fjallar um, sem er reyndar ekki nýtt, Sauðárkróksflugvöll. Það eru þingsályktunartillögur um tvo millilandaferjuflugvelli, þ.e. Höfn og Vestmannaeyjar. Það er verið að leita að nýjum flugvallarstæðum á Vestfjörðum, þannig að þið sjáið að það er af nóg af flugvöllum að taka. Og inn í þetta fléttast svo auðvitað flugvöllurinn sem ég var að nefna áðan, Reykjavíkurflugvöllur.

Ein spurningin þegar á þetta er horft allt saman er: Hve marga varaflugvelli í millilandaflugi þurfum við yfir höfuð innan lands? Hvert er flugtæknilega svarið? Það er til pólitískt svar, en hvert er flugtæknilega svarið við þessu?

Ég kann ekki að svara því. En inn í þetta fléttast eins og ég sagði áðan Reykjavíkurflugvöllur og hugsanleg lokun hans og þá er auðvitað spurning um að hann verði ekki varaflugvöllur framar ef hann er minnkaður og honum haldið þannig að hann verði áfram járnbrautarstöðin okkar. Það er stór spurning sem fléttast inn í alla þessa umræðu. Hvassahraunsflugvöllur gerir það líka vegna þess að hann er jú nálægt höfuðborginni, en hann þykir held ég flugtæknilega séð ekki jafn heppilegur og Reykjavíkurflugvöllur sjálfur. Hann liggur auk þess á jarðfræðilega mun viðkvæmara svæði en bæði Reykjavíkurflugvöllur og Keflavíkurflugvöllur. Við getum hugsað okkur sem svo að ef Hvassahraunsflugvöllur er hugsaður sem varaflugvöllur þá er hann a.m.k. hvað veðurfar snertir á sama veðurfarssvæði og Keflavíkurflugvöllur, þannig að ég get ekki ímyndað mér að hann geti komið í staðinn fyrir einhverja af þessum fjórum sem ég nefndi. Við sjáum hvað málið er í raun og veru að verða flókið með öllum þessum hugmyndum.

Þegar kemur svo að spurningunni um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll þá ætla ég að passa, ég er ekki viss um hvernig ég ætti að höndla þetta frumvarp ef ég gæti gert það bara einn og sjálfur, eða þ.e. þingsályktunartillögu sem þetta er, svo að ég dragi í land með frumvarpið. Þetta er kostnaðarsamt og við erum þarna inni í þessari stóru hringekju með þrjá, fjóra, fimm hugsanlega varaflugvelli á Íslandi. Svo eru náttúrlega varaflugvellir fyrir millilandaflug erlendis þó að það sé kostnaðarsamara.

Nú er þetta mál komið fram í fjórða sinn skilst mér og ég ætla einfaldlega að vona að nái það inn í nefnd og áfram til samþykktar, verði faglega unnið að þeim spurningum sem þarna eru settar fram.

Aðalatriðið í mínu máli er þó að það er kominn tími til og nógu mörg tilefni til að taka almennilega til í flugmálum á Íslandi og búa til flugstefnuna sem okkur vantar. Hún hefur kannski verið til í umræðu manna, hún hefur verið til í hugum manna, en það að reyna að koma á heildrænni flugstefnu í gegnum Alþingi og í sæmilegri sátt er alveg eftir og það þarf að hraða þeirri vinnu. Þá skiptir einmitt máli að fagmennskan sé í fyrirrúmi, þ.e. flugtæknileg fagmennska, og pólitíkin sé í öðru sæti vegna þess að flug er þess eðlis að pólitíkin má ekki yfirskyggja flugtæknina.

Mig langar að lokum að viðra hér hugmynd sem ég hef heyrt rædda manna á milli í þinginu varðandi svona þingsályktunartillögur sem kalla á nefnd, hvernig væri hægt að afgreiða þær í verki á kannski dálítið annan hátt, sem mér skilst að tíðkist í útlöndum, Norðurlöndum t.d., í stað þess að skipa enn eina nefndina. Ég veit ekki hversu margar nefndir eru nú starfandi á vegum ráðuneyta, hljóta að vera margir tugir, það er erfitt að manna þessar nefndir sérstaklega með ráðuneytisfólki. Mér skilst að sú aðferð sé til erlendis að ráðherra felur einum sérfræðingi, við skulum segja í þessu tilviki mjög vel menntuðum og reyndum flugtæknisérfræðingi, að skila áliti um tiltekið mál, en hann hefur fullt leyfi til þess að leita sér aðstoðar og leita sér upplýsinga og samvinnu vítt og breitt. Það er sem sagt verið að létta aðeins á ráðuneytum og í vissum tilvikum þar sem það hentar kemur skýrsla sérfræðings í staðinn fyrir nefndarskýrslu, en hún er ekki byggð á hans eigin áliti eingöngu. Þetta er til umhugsunar í lok þessarar stuttu ræðu.