149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem snýr að því að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll líka.

Ég kem hér upp til að taka undir þessa tillögu enda er þetta ágætt framsóknarmál sem flokkurinn stóð fyrir að flytja á fyrri þingum og er nærri óbreytt frá því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason flutti það hér á 144. þingi. En tilgangurinn helgar meðalið. Nú er verið að opna á leiguflug, beint flug að utan, til Akureyrar. Þekkt er að lendingarskilyrði geta verið erfið á Akureyri og þeir flugvellir sem þá koma til greina, sem varaflugvellir, eru á Egilsstöðum, sem er í 264 km fjarlægð, eða í Keflavík, sem er í 388 km fjarlægð, þannig að þetta eru nokkuð miklar vegalengdir ef svo á að flytja fólk landleiðis á milli. Ef tryggja á Akureyri í sessi sem alþjóðaflugvöll þarf varaflugvöllur að vera nær Akureyri, það væri betra.

Lengi hefur verið horft til Sauðárkróks sem varaflugvallar með tilliti til veðurfarslegra skilyrða. Alexandersflugvöllur er vel staðsettur þar sem aðflug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir.

Ég er fylgjandi því að bent sé á að þessi flugvöllur kæmi til með að þjóna Akureyri vel sem varaflugvöllur; hann gæti treyst þá mikilvægu starfsemi og flug almennt. Það er því vel til fallið að þessi mál verði skoðuð vel og rannsökuð. Þá liggur það fyrir að hægt verði að meta hlutina út frá því. Þetta er líka liður í að dreifa ferðamönnum um landið en það er oft nefnt að samgönguleiðir og mannvirki séu mikilvægir þættir í því að dreifa ferðamönnum um landið.

Styrking við alþjóðaflugvelli sem víðast um landið er öflug leið í þessum efnum. Síðan tekur vegakerfið við og innanlandsflugið. Til að jafna samkeppnisstöðu landshluta í ferðaþjónustu og búsetuskilyrði eru alþjóðlegir flugvellir mikilvæg forsenda. Það er líka mikilvægt fyrir aðrar atvinnugreinar, eins og uppbyggingu fiskeldis eða fiskútflutnings og aðrar vöruflutningaleiðir. Í nýsamþykktri byggðaáætlun er lögð áhersla á að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til landsins til að styðja við reglulegt millilandaflug. Því mætti ætla að skoða þyrfti fleiri möguleika en þá sem nú eru í kastljósinu.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Smára McCarthys þegar hann talar um að skoða þessi mál heildstætt, en þá er allt landið undir. Ég vill líka benda á þingsályktunartillögu frá hv. þm. Guðjóni Brjánssyni, sem snýr að því að finna nýtt flugstæði á Vestfjörðum. Það skiptir miklu máli að fara að skoða þetta heildstætt. Ég tek undir ábendingar sem hér hafa komið fram. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson benti á að taka þyrfti upp flugstefnuna en hún er bara ekki til. Það er kominn tími til að fara að vinna í þeim málum. Þau atriði sem komið hefur verið inn á, af þeim sem hér hafa talað, gætu fallið undir slíka stefnu. Ég held að það sé best að fara að hraða þeirri vinnu hvernig sem því verður háttað.

Að því sögðu vil ég lýsa stuðningi mínum við málið.