149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Sigurður Páll Jónsson. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í janúar 2019.“

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir tillöguna. Mér leiðist aldrei að tala um flugmál. Þessi tillaga er gott innlegg í þá umræðu. Ég hugsa að það orð sem mest hafi verið notað hér í þingsal síðan ég byrjaði sé flugvöllur og varaflugvöllur. Þetta mál tengist umræðu sem reynt hefur verið að halda uppi undanfarin ár og bent á þá alvarlegu stöðu sem komið hefur upp varðandi þessa hluti.

Hægt er að taka á þessu málefni á margan hátt. Fyrsta tillaga mín væri að sveitarfélög á Norðvesturlandi gerðu, með svipuðum hætti og Eyþing gerði núna á þessu ári, framkvæmdaáætlun fyrir Akureyrarflugvöll um hvað gera þurfi til að styrkja flugvöllinn. Það væri mjög gott innlegg að sveitarfélögin á Norðausturlandi tækju sig saman um raunverulega áætlun um hvað þyrfti að gera til að gera slíkan flugvöll að varaflugvelli og alþjóðaflugvelli. Ef hann á að gegna hlutverki varaflugvallar fyrir þessa flugvelli þarf hann að vera vottaður alþjóðaflugvöllur. Það er töluverð vinna og mikið verkefni.

Um síðustu áramót voru kröfur auknar mjög varðandi vottun á alþjóðaflugvellinum þannig að stöðugt er verið að herða allt sem snýr að þessum hlutum. Ég átta mig ekki strax á tölunum sem gætu verið bak við slíka framkvæmd að gera Alexandersflugvöll að alvörualþjóðaflugvelli, en ég tel að það gætu verið umtalsverðar fjárhæðir. Ef ég ætti að skjóta á einhverja upphæð myndi ég halda að á milli 10 og 20 milljarðar færu í slíkt verkefni.

Ég þekki ekki burðargetu núverandi flugbrautar á Alexandersflugvelli og hafði satt að segja ekki tíma til að skoða það. Það ætti ekki að vera svo flókið að nálgast gögn um það, en það er lykilatriði varðandi hversu stórar vélar geta lent á flugvellinum og hversu mikla þyngd flugvöllurinn ber. Ákveðnar reglur og staðlar eru notuð um það og er það mjög stór þáttur þegar verið er að meta raunverulega hvaða flugvélar geta lent á viðkomandi öllum. Þarna er olíumöl á vellinum, hann er ekki malbikaður. Satt að segja þekki ég ekki almennilega undirlagið, hvernig styrkingin er á flugvellinum, hvort það er sandur eða annað.

Þjónustan við millilandaflugið er töluverð og þess vegna hafa skapast tækifæri — en fyrst og fremst hafa flugvellirnir á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík getað sinnt hlutverki varaflugvalla og er töluvert flug um vellina og allt til staðar. Menn verða að styrkja þá þjónustu umfram það sem þarf fyrir innanlandsflugið og er til staðar á vellinum til að geta sinnt millilandaflugi, og styrkja slökkviliðin á vellinum til að geta staðist þá slökkviliðsþjónustuna á vellinum. Sú þjónusta er flokkuð eftir stærð véla og fjölda farþega sem koma inn á völlinn. Þá þarf ákveðna slökkviþjónustu. Svo getum við talið upp hin atriðin á listanum sem þurfa að vera til staðar.

Ég tel reyndar óraunhæft að skila svona verkefni í janúar 2019 miðað við umfangið því að ég þekki það sjálfur. Ég hef unnið verkefni sem er á svipuðum nótum varðandi svona hluti. Það þyrfti kannski aðeins meiri tíma.

Þetta snýr líka að því hvaða aðstaða og geta þarf að vera til staðar til að þjónusta starfsemi eins og er á alþjóðaflugvöllum. Það eru ótal þættir. Flugvöllurinn þarf náttúrlega að standast þær flugtæknilegu kröfur sem flugrekstraraðilar gera til að hægt sé að stunda millilandaflug frá þeim. Þar er um að ræða þætti eins og flugbrautalengdir, burðargetu flugvalla, aðflug sem boðið er upp á og þá þjónustu sem hægt er að veita á jörðu niðri af þjónustufyrirtækjum viðkomandi flugvallar. Einnig er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeirri flugumferðarþjónustu eða flugturnþjónustu. Þarna hefur ekki verið stýrð flugumferð, svokallaðir flugvallarverðir hafa verið þarna að störfum. Þannig að þetta þarf allt að skilgreina og merkja við í boxin.

Eins og ég benti á áðan eru fleiri þættir, eins og í hvaða eldvarnaflokki slökkvilið flugvallar er á viðkomandi flugvelli og hvað þarf að gera til að standast þær kröfur. Eins hvaða tækjabúnaður véladeildar á viðkomandi flugvelli er varðandi bremsumælingar og snjómokstur, sem getur verið umtalsvert verkefni. Þess má geta að að sópur og tæki með tönn á flugvelli kosta um 100 millj. kr. fyrir hvert eyki. Þannig að kostnaðurinn er fljótur að koma. Í Keflavík minnir mig að séu níu svona eyki og á Akureyri þrjú og á Egilsstöðum líka þrjú frekar en tvö. Þannig að þetta er fljótt að koma í búnaði og tækjum og er rétt að benda á það.

Síðan þarf að greina aðflugin og kosti og galla flugvallanna tengt aðflugum og landslagi. Ég þykist vita að það séu góð skilyrði í Skagafirðinum hvað það varðar. Þar er opið til suðurs og norðurs og vítt til veggja, þannig að það ætti ekki að vera vandamál og er staðsetningin góð. Við þyrftum náttúrlega að fá upplýsingar um nýtingarhlutfall vallarins. Það þyrfti að afla upplýsinga um það hversu góð nýtingin gæti orðið af slíkum velli. Það er töluverð vinna sem færi í það að afla gagna um veðurfarsmælingar.

Í umræðu um varaflugvelli vil ég benda á umsagnir tveggja aðila varðandi samgönguáætlun. Mig langar að lesa þær hér upp. Það er annars vegar umsögn Icelandair um samgönguáætlun, sem við vinnum nú að í þinginu. Þá vitna ég að beint í umsögnina:

„Á þeim tímum ársins sem mest er flogið má áætla að á sama tímapunkti geti verið yfir 30 flugvélar á leið til Keflavíkurflugvallar sem allar gera ráð fyrir að nýta flugvelli á Íslandi, aðra en Keflavíkurflugvöll, sem varaflugvelli. Vegna nálægðar flugvallanna í Keflavík og Reykjavík geta þau tilfelli komið upp að vindur, skyggni eða skýjahæð sé hamlandi þáttur á báðum flugvöllum og því ekki um aðra varaflugvelli að ræða á landinu en Akureyri og Egilsstaði. Vegna takmarkaðs rýmis á flughlöðum þessara flugvalla er útilokað að þeir geti sinnt hlutverki sínu fyrir allar þær flugvélar sem þyrftu að lenda þar ef slíkar aðstæður sköpuðust. Ljóst er að við slíkar aðstæður getur veruleg hætta skapast.

Það er mat forráðamanna lcelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flug til og frá Íslandi. Miðað við þau gögn sem lcelandair hefur undir höndum og fylgdi boði um umsögn er ekki að sjá að neinu fjármagni skulið varið til þessara mála á árunum 2019–2023. Að okkar mati er slíkt með öllu óforsvaranlegt.“

Ég get svo sem upplýst hér að að ég er formaður nefndar sem vinnur að þessum málum. Við væntum þess að skila af okkur niðurstöðum í þessum mánuði til þess að styrkja grunn varaflugvallanna þannig að komin verður skýrsla frá okkur áður en samgönguáætlun verður samþykkt inn í þá umræðu.

Það sem Icelandair segir í umsögn varðandi varaflugvellina tengist allt því sem ég hef verið að benda á hér. Það má glöggt sjá að Icelandair tekur mjög alvarlega umræðu varðandi varaflugvelli í landinu. Þarna kveður við annan tón en við höfum áður séð hjá Icelandair. Icelandair hefur mér vitanlega aldrei sent slíka umsögn frá sér þar sem þeir tala um hvernig þeir líta á varaflugvelli út frá öryggi og hver sé helsta ógnin við millilandaflug til og frá Keflavík, þ.e. vanbúnir varaflugvellir.

Ég fagna allri umræðu sem snýr að því, en ég hef ekki tíma til að fara í umsögn öryggisnefndar FÍA. Ég hvet hins vegar hv. alþingismenn til að skoða hvað kemur þar líka fram. Það hafa komið í mörg ár margar umsagnir frá þeim um þessa hluti sem við erum að ræða hér, sem eru vanbúnir varaflugvellir og það ástand sem skapast getur vegna þess.

Ég vil rétt koma því að í þessari umræðu að Reykjavíkurflugvöllur er gríðarlega mikilvægur þáttur í alþjóðaflugvallarkerfi landsins. Varaflugvellirnir eru bara fjórir, þannig að hver og einn hefur mjög stóru hlutverki að gegna. Mig minnir t.d. að ég hafi heyrt að í 80% flugtaka hjá Icelandair frá Keflavík sé Reykjavíkurflugvöllur notaður sem varaflugvöllur. Fólk þarf að kynna sér svolítið hvernig kerfið virkar til að átta sig á mikilvægi hlutanna. Það er ekki hægt að gefa sér neitt fyrir fram hvernig það virkar allt saman. Svo get ég rætt töluvert um Reykjavíkurflugvöll í framhaldi af því.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég minntist á í byrjun ræðunnar, ég vil hvetja sveitarfélög á Norðausturlandi til þess að vinna framkvæmdaáætlun með svipuðum hætti og EFLA vann fyrir Eyþing á þessu ári, sem snýr að uppbyggingu Alexandersflugvallar. Það gæti verið mjög gott innlegg inn í uppbygginguna.

Verið er að vinna að flugstefnu og má reikna með að hún komi (Forseti hringir.) fram á fyrri hluta næsta árs, en hún er mjög mikilvæg fyrir íslenskt flug til langrar framtíðar.