149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:52]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að við eigum að einbeita okkur að völlum sem eru uppbyggðir með fulla þjónustu og styrkja þá. Það eru raunverulega þeir sem gera það mögulegt að við getum rekið þessa varaflugvelli, þ.e. að þjónusta sé til staðar sem nýtist í þessu. Það þarf kannski að lengja aðeins brautina umfram þá þjónustu sem þarf fyrir innanlandsflugið og slíka þætti, en í grunninn er allt til staðar til þess að sinna því.

Það er mjög dýrt að reka flugvöll eingöngu sem varaflugvöll. Gerð var tilraun síðasta vetur varðandi innanlandsflug til og frá Alexandersflugvelli, milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Ég myndi gjarnan vilja sjá það þróast í framtíðinni. Það gekk kannski ekki alveg nægilega vel, en klárlega mundi ég vilja sjá það og mögulega gæti það sem hefur verið boðað, að skoða skosku leiðina og annað, ýtt undir það; ég myndi gjarnan viljað sjá það gerast.

Vegir koma aldrei að fullu til með að bjarga því að halda samgöngum opnum um leiðir sem eru 300, 400, 500 eða 700 km langar, þangað sem hægt er að fljúga á 40–50 mínútum, þannig að það sé alveg ljóst. Það eru gríðarleg vandamál með flugið á Ísafirði út af legu vallarins enda hafa sveitarfélögin þar mikið rætt um að koma inn með nýja staðsetningu og byggja upp flugvöll. Á Vestfjörðum er mikill áhugi á að byggja upp alþjóðaflugvöll, varðandi fraktflutninga og farþegaflug, fá ferðamenn á staðinn eins og við þekkjum. Þar hefur verið vinna í gangi og það er verið að skoða málin. Ég held að við ættum fyrst og fremst að einbeita okkur að því sem er til staðar.

Mig grunar að menn séu í þessu tilviki, hvað varðar Alexandersflugvöll, að horfa til lengri framtíðar. Í sjálfu sér þarf að byggja nýjan flugvöll frá grunni, grunar mig eftir að hafa aðeins kynnt mér þetta. Menn nota lítið það sem er til staðar í dag ef taka á stórar þotur og slíkt.