149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[15:02]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega þetta. Ég er aðeins komin nær í skilningnum. Það er búið að herða þessar reglur og þá læðist að mér enn og aftur þessi spurning: Endum við með því að fleiri flugvellir á landinu verði skilgreindir varaflugvellir? Það eru stjórnaðir vellir ef ég skil þetta rétt, ef skilgreiningin á varaflugvelli er stjórnaður flugvöllur, en öryggisflugvöllur, er hann óstjórnaður flugvöllur? Erum við á villigötum að vera með þingsályktunartillögu um varaflugvöll þegar við ættum að vera að tala um öryggisflugvöll eða eru staðlar ESA orðnir það þröngir eða stífir eða uppfærðir eða hvaða orð við viljum nota, að okkar vellir, ef við ætlum að hafa þá í standi, eru skilgreindir sem varaflugvellir?

Ég ætla aðeins að ítreka tímarammann á næsta ári í janúar. Hv. þingmaður segir að sá frestur muni ekki duga ef við ætlum að skoða raunhæft þessa hluti. Mig langar líka að spyrja hvort það sé einhver vitneskja um það hvernig staðið er að og farið með eftirlit á gæða- og öryggismálum á varaflugvöllunum sem við erum með í dag.