149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[15:06]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Þetta mál hefur nokkrum sinnum verið borið upp hér. Mér sýnist á gögnum þingsins að fyrst hafi það komið fram á 141. löggjafarþingi, og vísa ég þá í þingskjal 1027, mál 604. Þetta hefur verið mál sem þingmenn kjördæmisins hafa flutt og hafa þingmenn Framsóknarflokksins verið þar í forystu með það. Nú kýs þingflokkur Miðflokksins allur saman að fylgja þessu máli eftir og er það vel. Mér sýnist þetta vera algjörlega samhljóða eða lítið breytt því sem verið hefur frá upphafi þannig að mikill er áhuginn fyrir þessu máli og það tel ég bara vera jákvætt.

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir ágætisyfirferð. Hann talar hér af kunnáttu og þekkingu um þessi mál. Við búum vel að hafa mann á þingi sem hefur slíka þekkingu og getur frætt okkur um þessi mál. Við gerum okkur öll grein fyrir því að flugvellirnir okkar eru mikilvægir og er það tíundað í greinargerðinni. Farið er yfir vegalengdir á vegakerfinu innan lands. Það hefur svo sem fylgt þessu máli frá upphafi og er ágætisheimild og gott að fara yfir hvað það þýðir fyrir fólk í hinum ýmsu kjördæmum og svæðum samfélagsins að komast á milli staða. Það er miserfitt.

Við höfum verið er að leggja áherslu á að efla almenningssamgöngur. Við þurfum klárlega að bæta samgöngurnar og ekki hefur áður verið sett viðlíka fjármagn í samgöngumál og fram kemur í samgönguáætlun. En öll vitum við að gera þarf betur. Við þurfum að finna leiðir til að gera enn betur í þessum málum og ég finn ekki annað en að við séum öll sammála um það. Töluverð umræða hefur verið um varaflugvellina okkar fyrir Keflavíkurflugvöll, sem eru þá Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur. Við þurfum að gera betur á þeim flugvöllum. Hafa komið fram ýmis sjónarmið varðandi það og er það vel.

Við þurfum að hafa framtíðarsýn í þessum efnum eins og öðrum og er merkilegt að í 100 ára sögu flugs á Íslandi séum við fyrst núna að vinna að flugstefnu. Það hefur núverandi samgönguráðherra sett á koppinn og ég bíð spennt eftir því hvaða framtíðarsýn kemur þar fram. Við erum virkilega háð flugi hér, margir landshlutar eru það vissulega, líkt og við erum háð góðum vegasamgöngum og góðum samgöngum almennt. Reglulegt flug tryggir að atvinnulíf geti verið blómlegt og að fólk geti unnið á milli svæða. Það má því segja að það stækki atvinnusvæðin og það er gríðarlega mikilvægt.

Eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á er dýrt að halda rekstri flugvallar gangandi. Það er dýrt ef við ætlum að fara í það að reka tiltekinn flugvöll sem varaflugvöll. Það þarf ýmsan búnað. Ýmis grunnbúnaður að vera í lagi. Það þarf að kosta til og halda úti ákveðnum tækjabúnaði sem er ákaflega dýr. Það þarf að meta aðflutningsaðstæður og annað slíkt. En þó verð ég að taka undir það sem fram hefur komið hér, og ég hef líka heyrt, að þarna séu mjög hagstæðar aðstæður, jafnvel þannig að Alexandersflugvöllur gæti verið varaflugvöllur fyrir Akureyrarflugvöll.

Sitt sýnist hverjum um hverjum það hentar best. Ég held að við ættum ekki að loka á neina möguleika í þessum efnum. Það er annað með flugvellina sem hefur breyst, eitt sinn var hér fjöldi lendingarstaða og fjöldi flugvalla um allt land og þeir voru gríðarlega mikilvægir. Þá var vegakerfið í enn lakara standi en núna. Ef ég tek dæmi af norðausturhorninu var hægt að taka flugvél á milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar og Vopnfirðingar flugu iðulega á Egilsstaði. Það er gjörbreytt í dag og ekki er grundvöllur fyrir því lengur, en á flestum stöðum hafa vegirnir batnað þó að ég geti vissulega tekið undir að við þurfum enn að bæta það og erum sannarlega að því núna. Við þurfum að móta okkur framtíðarsýn. Þess vegna er mjög mikilvægt að við setjum fram flugstefnu, að við fáum hana fram og mótum okkur stefnu um hvert við ætlum að fara í þessu efni.

Einnig er verið að vinna að því að taka flugsamgöngurnar inn í almenningssamgöngukerfið með svokallaðri skoskri leið. Margir horfa til þess jákvæðum huga og bind ég vonir við að það jafni aðgengi okkar að þjónustu og öðru slíku og möguleika landsbyggðarfólks til að nota flugið. Við þurfum að hafa framtíðarsýn og samfellu í samgöngukerfunum. Flugið þarf að vinna með vegakerfinu, almenningssamgöngunum og það þarf að opna þetta. Þar er líka verk að vinna, og það er svo sem þegar hafið, að fólk geti komið hingað til lands og nýtt sér flug, almenningssamgöngur og svo einkabílinn allt í samfellu og að það sé aðgengilegt og ekki erfitt að finna um það upplýsingar. En ég hef heyrt á mörgum að það sé ekki nógu aðgengilegt þannig að það þurfum við að bæta.

Mér fannst líka athyglisvert það sem fram kom áðan í máli hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar að eitt sinn var lendingarstaðurinn á Höfn í Hornafirði skilgreindur sem alþjóðaflugvöllur. Hvaða skref eigum við að stíga? Er eðlilegra að við leggjum áherslu á að hann komi fyrst inn? Ég veit að það er áhugi fyrir þeim lendingarstað á því landsvæði. Hvernig eigum við að forgangsraða? Til að taka slíkar ákvarðanir þurfum við meiri vitneskju og meiri rannsóknir, við þurfum að vita meira um staðina en núna eru gerðar miklu meiri kröfur en áður og þá sérstaklega varðandi öryggismálin. Þar er himinn og haf á milli sem áður var í ljósi breyttra aðstæðna og aðstæðna í heiminum. Einnig hefur verið minnst á að snjóruðningur og annað slíkt sé dýr útgerð. Þá dettur mér í hug það er afskaplega snjólétt á Höfn í Hornafirði og ætti að vera minni kostnaður við snjómokstur þar. En engu að síður þarf allur útbúnaður að vera til.

Þetta kemur líka inn á atvinnumál. Ég komst að því þegar ég var í ferð á vegum þingsins á Grænlandi að þar eru menn mjög háðir flugi til að komast á milli staða og þurfa nær eingöngu að treysta á flug. Þar eru Íslendingar sem sjá um hreinsun á flugvöllum. Við búum yfir þekkingu hér á landi og kunnáttu og hér er öflugt fyrirtæki sem þjónustar velli á Grænlandi. Þannig að við höfum kunnáttuna en við þurfum að geta fjármagnað verkið og fylgt því eftir. Það er ekki nóg að byggja upp, koma upp lendingarstöðum, koma upp þeim mannvirkjum sem þarf, það þarf líka að huga að rekstrinum.

Ég legg til að við einbeitum okkur að því sem við höfum núna til staðar. Við þurfum að verja það, við þurfum að byggja það upp og byggja utan um það. En þar með er ég alls ekki að segja að við eigum að kasta þessari hugmynd út af borðinu enda hefur verið mikill áhugi á þessu máli, ekki bara á norðvesturhorninu þó að það hafi verið mestur áhugi þar. Það er eðlilegt. Þingmenn þess kjördæmis, undir forystu Framsóknarmanna, hafa margsinnis lagt þetta mál fram, allt að fimm sinnum, telst mér til. Þannig að allar framfarir, öll framfaraskref sem við stígum í samgöngumálum eru okkur til framdráttar og sannarlega höfum við áhuga á því að stíga fast og ákveðið til jarðar í þeim efnum. Við aukum lífsgæðin, við aukum möguleika okkar og eflum atvinnulífið, sem er grunnurinn að allri velferð í þessu landi.