149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[15:19]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hingað upp aftur til að þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur eftir að ég mælti fyrir þessu máli. Umræðan hefur verið mjög málefnaleg og í anda þess að við þjónum landinu öllu, sem er eitt af meginstefnumálum okkar í Miðflokknum. Við erum með stefnu sem gengur undir nafninu „Íslandi allt“, og mér finnst sú umræða sem hefur skapast í kringum þetta mál lýsa því að þingmenn eru á því að horfa skuli til alls landsins. Einn þingmaður gaukaði því að mér áðan að honum fyndist við vera farin að vera svo málefnaleg í þinginu nú síðustu misseri og er það vel. Ég óska þess að það haldi áfram. Það er miklu meira gagn að því fyrir land og lýð að við getum verið málefnaleg, til uppbyggingar og eflingar okkar ágæta landi.

Það sem hefur komið fram í þeim ræðum sem haldnar hafa verið hefur verið mér mikill skóli að hlusta á. Nánast í hverri einustu ræðu er eitthvað sem ég hef kveikt á. Ég er enginn sérfræðingur um flugmál, það er nú bara þannig. En ég hef mikinn áhuga á því að við undirbyggjum samgöngur sem eru eitt af stærstu innviðamálum okkar. Þar er flugið undir, ekki bara vegasamgöngur.

Þessi tillaga snýst ekki um forgangsröðun. Það kom fram áðan hvort ekki væri rétt að eitthvað annað kæmi á undan áður en farið væri í þetta. Það er ekki minn hugur, þegar ég flyt þetta mál, að það eigi að fá að koma á undan einhverju öðru. Við búum við þá staðreynd, Íslendingar, að hingað koma 2,5 milljónir ferðamanna á ári — á þessu ári munu þeir verða 2,5 milljónir, eru þegar orðnir 2,3 milljónir. Það hlýtur að kalla á meira öryggi í flugi því að allir þessir ferðamenn koma fljúgandi og því fylgja vandamál.

Það er í raun ótrúlegt hve flugsamgöngurnar hafa getað mætt þessu vandamáli á farsælan hátt, þó að oft hafi litlu munað. Það hefur komið fram í ræðum. Hv. varaþingmaður okkar í Miðflokknum, Jón Þór Þorvaldsson, hefur haldið ræður um öryggismál og spurt samgönguráðherra út í hvort til sé einhver áætlun um betrun í þeim málum, hvað varðar öryggismálin. Það hefur ekki verið mikið um svör. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar áðan vantar okkur flugstefnu. Það kom reyndar fram í annarri ræðu, sem var haldin rétt áðan af hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, að samgönguráðherra vinnur að því að leggja fram flugstefnu. Það er gleðiefni og annað í þeim dúr.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að svona mikil aukning er í flugsamgöngum vegna þessara mörgu ferðamanna — við Íslendingar erum náttúrlega líka að fljúga út og suður — þurfum við að þétta þetta öryggisnet. Því var meira að segja gaukað að mér að við værum líka að tala um kolefnisspor og annað slíkt. Ef öryggismálin væru þannig að það væri sannarlega einn aukaflugvöllur sem væri í lagi, eða tveir eða fleiri, í millilandafluginu þyrfti ekki eins mikið eldsneyti. Vélar sem eru að koma frá ákveðnum stöðum þurfa oft að bera með sér eldsneyti til að geta komist aftur út á erlenda flugvelli. Það eldsneytismagn þyrfti ekki að vera eins mikið ef varaflugvellir og öryggismál hér heima væru í betra standi.

Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta að sinni en það er greinilegt að góð og málefnaleg umræða næst. Það hefur komið fram að málið hefur verið flutt fjórum til fimm sinnum áður og hefur, held ég, aldrei fengið þessa umræðu sem það fær í dag. Svona þroskast mál með tímanum. Þolinmæði er dyggð. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það var eitt sem mig langar að koma inn á, sem kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, þ.e. að sveitarfélög á Norðvesturlandi taki sig saman og móti stefnu í flugvallarmálum. Það fannst mér góður punktur og það myndi fylgja þessu máli betur eftir ef það væri gert.

Að því sögðu ætla ég að þakka kærlega fyrir umræðuna og vonandi fær málið góðan framgang.