149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

auðlindir og auðlindagjöld.

35. mál
[15:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er full ástæða til að taka undir orð hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar um hversu málefnaleg umræðan er og ég ætla að reyna að halda henni áfram. Margar eru auðlindir landsins og í greinargerð með málinu, sem hv. þingmaður nefndi áðan, er fjallað um greiningu á auðlindum og liggur við að þær séu orðnar margir tugir. Í sumum tilvikum er auðvitað augljóst hvað auðlind er, eins og jarðvarminn á Íslandi, en annað er heldur langsóttara, eins og auðlindin hreint loft. Það gæti orðið umdeilanlegt hvort hreint loft sé auðlind eða ekki. En hvað um það. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hefur lagt fram frumvarp ásamt öðrum hv. þingmönnum Miðflokksins um úttekt á auðlindum og því ber að fagna. Búið er að mæla fyrir því, eins og fram kom, en það seinna hér er þingsályktunartillaga sem fjallar fyrst og fremst um auðlindagjöld og hvernig skuli farið að því að svara þar ákveðnum spurningum.

Herra forseti. Það eru margar auðlindir sem eru augljóslega almannaeign eða þjóðareign, eins og við segjum með fiskinn. Aðrar eru augljóslega ekki þjóðareign, við skulum segja hlunnindi eins og dúnn eða dúntekja, og svo eru álitamál eins og klóþang í Breiðafirði þar sem spurningin er innan netlaga, hvort það geti talist eign viðkomandi landeigenda þótt þeir nýti ekki og geti ekki nýtt þá auðlind eða hvort þarna eigi samfélagið og eigandinn þá um leið að njóta auðlindagjalda sem af þeirri auðlind væru tekin.

Varðandi pólitísku markmiðin liggur nokkuð ljóst fyrir að samstaða er um það á Alþingi að þjóðin eða almenningur njóti afraksturs af auðlindum að einhverju leyti. Það er í sjálfu sér kannski framför frá því sem var fyrir einhverjum áratugum.

Þá komum við að hinum umdeildu auðlindagjöldum, sem sagt hvernig þau eru innheimt og hver viðmiðin eru. Hvaða upphæðir endum við með að taka, í prósentuvís eða á einhvern annan máta, og hvaða auðlindir eru þar undir? Ég ætla hins vegar ekki að fjalla um það. Málið gengur væntanlega til nefndar en ég ætla að reifa málið örlítið á breiðum grunni þingmönnum til umhugsunar.

Það er þannig með almannahag af auðlindanýtingu að sú mynd er ekki einföld. Þetta snýst ekki um einfalda mynd eins og það að hægt sé að innheimta auðlindagjöld af fiski sem kemur upp úr sjónum. Við getum t.d. tekið ódýra orku á Íslandi, tökum varmaorkuna, upphitunina. Það er staðreynd að Íslendingar borga einhver lægstu húshitunargjöld sem fyrirfinnast. Það er mikill sparnaður að því og má segja sem svo að þarna sé ákveðið auðlindagjald sem öllum fellur til, sem er í formi ódýrrar orku.

Það er líka hægt að líta svo á að mikill almannaréttur á Íslandi, ef við hugsum um útivistarfólk og þau lífsgæði, tryggi fólki aðgang að ákveðinni auðlind og það sé eins konar auðlindagjald í dulbúningi. Þetta er ekki útúrsnúningur heldur einfaldlega tilraun til þess að sýna að hagsmunir fólks þegar kemur að auðlindum landsins eru ekki eingöngu fólgnir í beinum auðlindagjöldum. Engu að síður er almennur vilji til að innheimta auðlindagjöld og er um verulegar upphæðir að tefla. Við getum hugsað okkur að það skipti mörgum milljörðum á ári ef það er teygt út yfir fiskinn t.d. Þá er spurningin hvað skuli gera við aurana.

Byrjum á því sem hv. flutningsmaður nefndi, að auðlindanefnd frá árinu 2000 hafi komið með ákveðnar hugmyndir, m.a. um græna skatta og rannsóknir og annað slíkt. Hægt er að veifa fleiri hugmyndum. Ég nefni afmarkaðan þjóðarsjóð, eða hvað við munum kalla hann, sem fengi tekjur af auðlindagjöldum og færi í það að greiða skuld okkar við framtíðina, þ.e. er að styrkja innviði landsins. Eftir hrun á þeim áratugi sem leið fóru innviðirnir, eins og við vitum öll, í breiðasta skilningi þess orðs og tími til kominn að gert verði stórátak umfram það sem þingið gerir hverju sinni, þ.e. fjárlög o.s.frv. Við getum líka hugsað okkur að horft sé til framtíðar þar og hluti af þeim tekjum gangi til nýsköpunar.

Það er hægt að hugsa annars konar sjóð sem við getum kallað náttúruhamfarasjóð þar sem gjöld, auðlindagjöld, ganga inn í bankana, inn í handraðann og það notað til að mæta stórum áföllum, annaðhvort jarðskjálftum eða því sem er algengara, eldgosum eða stórviðrum eða hvað það kann að vera. Enn fremur eitthvað tengt loftslagsmálum, ekki einhverjar aðgerðir til minni losunar eða slíkt heldur að sjóðurinn sé notaður til þess að aðlaga landið að óhjákvæmilegum afleiðingum loftslagsbreytinga, hvernig sem fer um minnkandi losun eða ekki. Það væri þá líka eins konar sjóður sem væri hugsaður til framtíðar. Við værum að nota hann til að aðlaga okkur að loftslagsbreytingum.

Enn ein hugmyndin væri stöðugleikasjóður sem væri með mjög óskilgreind markmið. Hægt væri að nota hann í ýmislegt, eins konar almennur uppbyggingarsjóður í eitt og annað, jafnvel menningu og annað slíkt.

Það er því af nógu að taka og vonandi verður farið að hyggja að þeim málum alla leið, alveg yfir í álit einhvers starfshóps eða sérfræðingahóps og yfir í að sett verði um það lög að mismunandi hugmyndir verði teknar með, ræddar og afgreiddar.

Að lokum speglast þetta svo yfir á eitt af þeim stóru málum sem varðar stjórnarskrá Íslands, þ.e. auðlindaákvæði í stjórnarskránni, sem er, eins og menn vita, lýst eftir á nákvæmari hátt en verið hefur hingað til. Það minnir okkur á að þessi þingsályktunartillaga ítrekar enn og aftur að nauðsynlegt er að lenda umræðu og lagasetningu um auðlindir og auðlindagjöld á 21. öldinni.