149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

EES-samningurinn.

[15:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í rauninni er ég glöð yfir að hún skyldi koma fram vegna þess að það voru fleiri en hv. þingmaður sem skildu orð mín eins og hv. þingmaður þegar ég svaraði þessu síðast þegar ég sagði að ég væri ekki að segja að það væri ekki leið sem ég væri til í að fara. Þannig að ég verð að valda hv. þingmönnum vonbrigðum og segja að það séu engin stórtíðindi.

Ég er alls ekki til í að segja upp EES-samningnum. Það jákvæða við það er að það eru þá ekki slæm tíðindi samkvæmt hv. þingmanni. Þegar ég tala um leiðangur er ég að vísa í að það hafi aldrei reynt á það, við höfum ekki aflétt stjórnskipulegum fyrirvara og það þyrfti þá að fara í ákveðið ferli. Við erum auðvitað með grein nr. 102 í EES-samningnum þar sem opnað er á hvaða leið svona mál geta farið. Ég hef líka sagt að það geti enginn svarað því með vissu hvaða afleiðingar það hefði ef við myndum ekki innleiða þennan þriðja orkupakka. Það er sá leiðangur sem ég er að tala um.

Ég hef sett þetta í samhengi við önnur mál. Sífellt fleirum líður eins og að Evrópusambandið beri ekki þá virðingu fyrir tveggja stoða kerfinu og okkur finnst það eiga að gera. Það eru fleiri mál þar sem gengið hefur verið ansi langt gangvart framsalsheimildum okkar miðað við stjórnarskrá okkar. Þess vegna loka ég ekki á að ef að við ætlum okkur að hefja eitthvert samtal við Evrópusambandið um EES-samninginn og um frekara valdaframsal er ég alveg til í að ræða það. Ég segi bara: Við vitum ekki hvert það leiðir okkur og ég vil ekki sjá málið spinnast þannig að við sjáum ekki fyrir endann á því. Þá er ég einmitt að vísa í það að í grunninn snýst málið um EES-samninginn. Ég er á þeirri skoðun að EES-samningurinn sé okkar mikilvægasti alþjóðasamningur en það er ekkert óeðlilegt við að hann geti þróast einhvern veginn. Hann hefur auðvitað þróast mjög mikið undanfarin 20 ár og það er ekkert að því að ræða það í hvaða átt hann hefur þróast og hvort við viljum einhvern tímann stappa niður fæti og segja: Heyrðu, nú þurfum við aðeins að staldra við. Hefur hann þróast í þá átt sem okkur líður vel með? En ég vil ekki fórna EES-samningnum, alls ekki.