149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

EES-samningurinn.

[15:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er samt svo að mikill ágreiningur er innan stjórnarflokkanna um þriðja orkupakkann. Það var a.m.k. haft eftir stjórnarþingmanni í fjölmiðlum um helgina og enn fleiri segja að hörðustu átökin eigi sér stað á milli hópa innan flokksins sem hæstv. ráðherra er varaformaður fyrir. Einhver undirtónn er nú þarna og menn tala mjög skýrt í fjölmiðlum um það.

Ísland hefur þegar framkvæmt mikilvægustu breytingar sem leiða af þriðja orkupakkanum og fátt sem breytist við innleiðinguna. Í því ljósi er umræðan svo merkileg.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi rætt við ráðherra Noregs um þau mál. Hefur eitthvert samkomulag verið gert við Noreg um afgreiðslu orkupakkans? Er búið að greina og skoða hvað myndi gerast ef ekkert yrði af innleiðingunni hér á landi?