149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

stytting biðlista.

[15:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Hún talaði um sérstaka áherslu á liðskiptaaðgerðir. Ég gæti sagt: Það eru rúmlega 1.000 sem bíða eftir augasteini, 80 eftir hjartaþræðingum, 130 eftir grindarbotnsaðgerð, 69 eftir legnámi, 1.000 bíða á Reykjalundi, 622 hjá SÁÁ. Nei, ég var ekki að raða því upp í sérstaka röð, hæstv. ráðherra.

Talandi um að skilgreina biðlista gúglaði ég orðið og stytti bæði mér og ráðherra leið. Orðið biðlisti merkir það þegar ákveðinn fjöldi aðila bíður í röð eftir tiltekinni þjónustu. Þær tölur sem ég nefndi um mjöðm og hné eru frá landlækni komnar. Ég veit ekki hvort landlæknir skilgreinir orðið biðlisti öðruvísi en ráðherrann og Google en það kemur þá bara í ljós þegar ráðherra svarar mér í seinna andsvari.

En nú ætla ég að spyrja sérstaklega aftur: Verður einkaaðilum hleypt að þeim aðgerðum til að stytta biðtíma fólks og til að takmarka óþægindi og kvalir þess?