149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

stytting biðlista.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það vill svo til, þótt kannski sé einfalt að grínast með það að orðabók sé annarrar skoðunar en ráðherrann og Google finnist eitthvað o.s.frv., að eitt af verkefnum embættis landlæknis er að skýra og skilgreina biðlista því að mikilvægt er að sameiginlegur skilningur sé á því hvað þar liggur að baki. Ég hef tekið þetta sérstaklega upp við núverandi landlækni og það er á dagskrá hennar á næsta ári. Ég geri ráð fyrir því að þar sem embættið sýnir því áhuga og setur það í forgang snúist það ekki bara um að fletta hugtakinu upp á Google.

Það er auðvitað unnið að forgangsröðun í öllum þeim aðgerðum sem hv. þingmaður spyr um. Talið er varðandi augnsteinaaðgerðir og aðrar þær aðgerðir sem hv. þingmaður nefnir, fyrir utan liðskiptaaðgerðir, að við séum búin að ná ásættanlegum árangri samanborið við löndin í kringum okkur, sem við berum okkur að jafnaði saman við.