149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

hjálparhlutir fyrir fatlaða.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hindranir gagnvart öryrkjum eru alveg ótrúlega margar og sumar virðast vera algjörlega tilgangslausar. Ekki virðist vera hægt að fara eftir lögum. Til dæmis segir í nýlegum dómi Hæstaréttar að ef við lögfestum ekki samning Sameinuðu þjóðanna sé ekki hægt að fara eftir byggingarreglugerðum varðandi aðgengi fatlaðra. Síðan er það líka þannig að rútufyrirtæki virðast ekki eiga að uppfylla það að vera með lyftur nema einhver kæri.

Nýjasta dæmið er svo að Sjúkratryggingar Íslands neita einstaklingum, þeim sem eru mest fatlaðir, fæddir fatlaðir, ungir og þekkja á tæknina og vilja bjarga sér sjálfir, t.d. um að fá „bluetooth“-mús fyrir R-net og um að fá aukahlut á stól sem heitir X-grip spjaldtölvuhaldari. Þetta eru hlutir til að einfalda og auðvelda þeim einstaklingum sem eru mikið fatlaðir að kvitta undir allt sjálfir, t.d. hjá sjúkraþjálfara eða þegar þeir borga vörur og annað. Þetta er svo einfalt og þess vegna er mér óskiljanlegt að það skuli vera svona. Maður myndi skilja ef þetta væri eitthvað nýtt en svo er ekki, sumir fá þetta og aðrir ekki.

Þá spyr ég: Ætti það ekki einfaldlega að vera þannig að þeim einstaklingum sem eru í rafmagnsstólum og eru virkilega fatlaðir en hafa vilja og getu til að bjarga sér sjálfir væru sköffuð slík tæki? Ég get ekki séð að það sé ríkissjóði ofviða að borga tækin vegna þess að það er ekki slíkur ofboðslegur fjöldi sem hefur beðið um þau.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að við sjáum … (Gripið fram í: Félags…) — Nei, heilbrigðisráðherra, þetta eru Sjúkratryggingar. Þar af leiðandi spyr ég hvort ekki sé sjálfsagt (Gripið fram í: Spyrja félagsmálaráðherra.) að sjá til þess að Sjúkratryggingar … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti las upp að fyrirspurninni væri beint til félags- og jafnréttismálaráðherra.)

Það átti að vera búið að breyta því í heilbrigðisráðherra.

(Forseti (SJS): Þá held ég að rétt sé að hv. þingmaður fái aftur tækifæri til að lesa spurninguna. Ég bið hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra forláts og undirbý hæstv. heilbrigðisráðherra til að svara. Ef hv. þingmaður vildi endurtaka fyrirspurn sína.)

Alveg sjálfsagt. Það sýnir bara hversu flókið kerfið er [Hlátur í þingsal.] að málið geti varðað heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra, samgönguráðherra og jafnvel líka nafna minn. Ráðuneytin eru ótrúlega flókin og þess vegna skil ég ekki að ekki skuli vera búið að einfalda þetta.

Ég ætla að endurtaka spurningu mína. Við erum að tala um „bluetooth“-mús fyrir R-net og X-grip spjaldtölvu fyrir rafmagnsstóla. Þetta er fyrir fólk sem er virkilega fatlað, er til að mynda fætt með fötlun. Þetta er ungt fólk sem vill bjarga sér sjálft, vill geta skrifað undir. Það fer út í búð og vill geta skrifað undir sjálft þegar það notar greiðslukort. Það vill sjálft geta kvittað hjá sjúkraþjálfara. Það vill ekki fá aðstoð við alla þá hluti.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ef einstaklingar telja sig geta gert þetta og vilja gera það, eiga þá Sjúkratryggingar Íslands að neita? Hitt er að búið er að segja já við suma. Við eigum að hvetja fólk til að bjarga sér sjálft. Ég held að við séum alveg sammála um það. Ég vona a.m.k. að ráðherra sjái til þess að svona hlutir verði sjálfsagðir.