149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

hjálparhlutir fyrir fatlaða.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að málaflokkurinn er flókinn, en sem betur fer er það líka þannig að málefni fatlaðs fólks varða samfélagið allt og þess vegna alla málaflokka og öll ráðuneyti.

En mig langar sérstaklega til að svara þessari fyrirspurn hv. þingmanns með því að nefna að mjög fljótlega eftir að ég tók við embætti heilbrigðisráðherra setti ég í gang vinnu undir forystu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og með aðkomu Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og fleiri aðila til að fara ofan í kjölinn á hjálpartækjamálunum öllum. Sá málaflokkur hefur beðið og hefur verið settur til hliðar, þ.e. hann hefur ekki beinlínis verið á dagskrá um langt árabil. Þar er ekki síst mikilvægt að horfa einmitt til þessara tæknibreytinga sem við sjáum í dag og hvernig við þurfum í raun og veru að uppfæra til nútímans samspilið við Sjúkratryggingar Íslands, greiðsluþátttöku o.s.frv.

Nefndin hefur ekki lokið störfum en þetta er, samkvæmt því sem hv. þingmaður var að hvísla að mér bara rétt í þessu, eitt af því sem nefndin er að fjalla um, þ.e. þessi tæknilegu úrlausnarefni sem hv. þingmaður nefnir. Nefndinni er falið að skoða lagaumhverfið, að skoða reglugerðarumhverfið en ekki síður að fara yfir framkvæmdina á þessu lagaumhverfi, reglugerðarumhverfi, sem við erum með núna. Ég vænti mikils af þessu verkefni og er sammála hv. þingmanni um að það sem á að vera grunntónninn í þessu öllu saman er mikilvægi þess að fólk hafi fullt aðgengi að samfélaginu þannig að það geti tekið þátt í því, ekki bara sjálfs sín vegna heldur líka samfélagsins vegna, það þarf á kröftum allra að halda.