149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

aðgerðir gegn skattsvikum.

[15:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í byrjun árs 2017 skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, starfshóp til að greina umfang og áhrif skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap og hvernig mætti minnka svarta hagkerfið. Starfshópurinn skilaði viðamikilli skýrslu fyrir tæpu einu og hálfu ári.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig staðið sé að úrvinnslu hugmynda og tillagna þeirra, sem eru margar og margar hverjar mjög merkar, hver staðan sé og hvernig unnið sé að þeim verkefnum í fjármálaráðuneytinu.

Formaður nefndarinnar dró þetta saman í fjögur meginatriði í lokaorðum með skýrslunni og myndi ég vilja biðja hæstv. ráðherra að víkja sérstaklega að hverjum flokki fyrir sig í svörum sínum.

Það er í fyrsta lagi einföldun virðisaukaskattskerfisins og fækkun skattþrepa, helst í eitt skattþrep, samhliða lækkun skattsins sem myndi draga úr undanskotum.

Í öðru lagi kröfur um hæfisskilyrði einstaklinga til að gerast innheimtumenn ríkisins á virðisaukaskatti og almennt hæfi einstaklinga til að stofna hlutafélög og stunda viðskipti með þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Síðan voru tillögur sem snúa að keðjuábyrgð fyrirtækja, t.d. í byggingariðnaði, og einnig til að mæta þeim áskorunum sem voru og eru enn í ferðaþjónustunni vegna vaxtar.

Í fjórða lagi voru settar fram tillögur um takmörkun á notkun reiðufjár. Ástæða þess er nefnd hér, innkaup og flutningur fjármuna milli landa í stórum stíl á ekki að tíðkast með notkun reiðufjár. Notkun reiðufjár er mikilvægt hjálpartæki í svartri atvinnustarfsemi og þar með undanskotum frá sköttum.

Mér þætti vænt um að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra svaraði þessum spurningum.