149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

aðgerðir gegn skattsvikum.

[15:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Mig langar að spyrja aðeins nánar út í virðisaukaskattinn. Ég held að hæstv. ráðherra hafi orðað það þannig að verið væri að þétta virðisaukaskattskerfið, væntanlega þá í þeirri meiningu að koma í veg fyrir leka og undanskot. Mig langar til að þýfga hann aðeins um stefnu ríkisstjórnarinnar en ekki síður Sjálfstæðisflokksins hvað varðar það að stefna að einu þrepi í virðisaukaskatti.

Nú vill þannig til að formaður þeirrar ágætu nefndar sem skilaði þessu áliti er trúnaðarmaður innan Sjálfstæðisflokksins og hefur starfað þar lengi og ég hygg að hann hafi þarna m.a. verið að koma á framfæri þeirri stefnu sem hefur verið innan flokksins varðandi virðisaukaskattskerfið. Mér þætti vænt um ef það kæmi fram hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé fallinn frá því að stefna að einu þrepi virðisaukaskatts eða hvort hér sé um að ræða tímabundið hlé.