149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

gerð krabbameinsáætlunar.

[15:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin út leiðbeiningar um það hvernig krabbameinsáætlanir skyldu byggðar upp og mælti með því að þjóðir tækju upp slíka áætlun til að ná betri árangri varðandi krabbamein, draga úr nýgengi og dánartíðni, ásamt því að stuðla að bættum lífsgæðum sjúklinga. Einnig sé markmið þeirra að bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með hefðbundinni innleiðingu gagnreyndra aðgerða á vettvangi forvarna, snemmgreiningar, meðferðar og líknar. Í krabbameinsáætlun skal jafnræði þegnanna og hagkvæmni haft að leiðarljósi.

Fjölmörg lönd hafa yfir að ráða krabbameinsáætlun og Ísland hefur fram til þessa verið eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur heildstæða krabbameinsáætlun. Árið 2013 skipaði þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, ráðgjafarhóp um tillögur að markmiðum og aðgerðum í krabbameinsáætlun. Sá ráðgjafarhópur skilaði niðurstöðum sínum til ráðuneytisins á síðasta ári. Í tillögum ráðgjafarhópsins segir að markmið með krabbameinsáætlun verði að landsmönnum skuli standa til boða að búa í samfélagi þar sem áhersla verði lögð á forvarnir með heilsueflingu og snemmgreiningu sem miði að því að lágmarka hættuna á því að fá krabbamein. Þar skuli standa til boða heilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingsbundið mat er lagt á hættu á krabbameini út frá áhættuþáttum erfða- og fjölskyldusögu. Einnig er talað um hópleit.

Ekki síst snýst þetta um að einstaklingum sem fá krabbameinsgreiningu skuli standa til boða greining og einstaklingsmiðuð meðferð og að þeir eigi rétt á að málefni þeirra séu rædd á faglegum samráðsfundi til að tryggja bestu meðferð. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvenær hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra koma krabbameinsáætluninni í framkvæmd?