149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

gerð krabbameinsáætlunar.

[15:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og hvet hana til dáða í þessum efnum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að krabbameinssjúklingum í heiminum fjölgi árlega um 70% á næstu tveimur áratugum. Stofnunin telur ólíklegt að hægt verði að stemma stigu við krabbameinssjúkdómum með lækningum heldur verði að koma í veg fyrir ný tilfelli með fyrirbyggjandi aðferðum. Því er mikilvægt að fólk og samfélög hafi yfir að ráða góðri áætlun þar sem horft er til þess hvernig halda eigi utan um þann heilbrigðisvanda, auk þess sem hægt er að gera svo miklu betur í utanumhaldi um þá einstaklinga sem greinast með krabbamein. Það myndi skila þeim fyrr til baka til þátttöku í atvinnulífi og/eða gera þeim betur kleift að lifa með sjúkdómnum í daglegu lífi.

Með því að einbeita sér með skipulögðum hætti að líðan og þjónustuþörfum einstaklinga með krabbamein og veita þjónustu í samræmi við það skilar það sér til baka í betri líðan og styttri meðferð sem allir græða á. Þá er maður helst að tala um einstaklinginn, að hann renni inn í ákveðið ferli sem honum er veittur stuðningur í, (Forseti hringir.) auk þess sem honum er veitt sú besta meðferð sem völ er á.