149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

gerð krabbameinsáætlunar.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í þessari áætlun er líka sett í forgang að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum þeirra sé boðið upp á þjónustu sem byggist á virkri gæðaskráningu, þar með sé skapaður möguleiki til mats á árangri og samanburði við alþjóðleg viðmið. Þetta er líka í samræmi við ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ábyrgðaraðili í þessu verkefni verður embætti landlæknis, Krabbameinsskrá í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala – háskólasjúkrahús.

Loks verður sett í forgang að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum verði boðin skipulögð, samfelld og samræmd þjónusta sem veitt er á réttum tíma. Ábyrgðaraðilarnir hér eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem samræmir viðbrögð heilsugæslunnar um allt land.

Virðulegi forseti. Þessi forgangsröðun mín verður auðvitað gerð með formlegum hætti og væntanlega sett á heimasíðu ráðuneytisins og staðfesting á þeim drögum sem hafa borist ráðuneytinu og hafa verið til vinnslu þar þannig að niðurstaðan sé sýnileg öllum, þar með talið þeim sem þjónustunnar njóta.