149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þakka þér fyrir. Ég vil koma upp til að fara sérstaklega yfir það að mér finnst málfrelsi þingmanna afar gott í pontu Alþingis, hvort sem ég styð ríkisstjórn eða ekki. Það fyrirkomulag að bæta við einni fyrirspurn snerist ekki eingöngu um að stjórnarandstaðan fengi að skipta því á milli sín með reglubundnum hætti heldur er það fyrir okkur þingmenn. Mér finnst þetta mjög mikilvægt. Við veitum ráðherrum okkar aðhald. Mikilvægt er að það gerist í pontu Alþingis, hvort sem það er í formi fyrirspurna, í formi ræðna eða í hvaða formi sem er. Ég held að það sé afar mikilvægt. Við eigum að virða þann rétt okkar allra og ekki draga okkur í dilka hvað þetta varðar.

Ég ætlaði að árétta að við eigum að virða rétt okkar allra til að taka þátt í því einmitt að geta skipst á skoðunum.